Þetta staðfestir Hjördís Sigurbjartsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.
Hundurinn beit karlmanninn í handlegginn með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á hendi og missti blóð. Blóð var á veggjum, gluggum og gólfi í stigaganginum þegar að lögreglu bar að garði en erfitt var að meta magn blóðmissis og maðurinn því fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús.
Konan leitaði einnig á slysadeild
Hundurinn sem um ræðir er af gerðinni Standard Schnauzer. Konan hlaut einnig skurð á hendi og leitaði á slysadeild í kjölfarið samkvæmt heimildum Vísis.
Í fréttaskeyti lögreglunnar frá föstudagskvöldi kom fram að tilkynnt hafi verið um óðan hund sem réðst á tvo í Grafarvoginum.
Mikil læti þegar hundurinn æstist
Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri Dýraþjónustunnar, sagði að hundurinn hafi róast þegar hann var færður í vörslu þjónustunnar. Það líti út fyrir að eitthvað hafi komið upp á og æst hundinn upp.
Samkvæmt heimildum fréttastofu urðu mikil læti þegar hundurinn æstist. Atvikið var einnig tilkynnt til Matvælastofnunar (MAST).