Sport

Bakmeiðsli plaga Murray og enn ó­víst hvort hann taki þátt á Wimbledon

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andy Murray vann Wimbledon árið 2013 og 2016 en er að glíma við meiðsli í baki.
Andy Murray vann Wimbledon árið 2013 og 2016 en er að glíma við meiðsli í baki. Visionhaus/Getty Images

Wimbledon tennismótið á Englandi hefst í dag en það er enn óvíst hvort Andy Murray muni taka þátt. Hann hefur verið að glíma við meiðsli í baki.

Farið er síga verulega á seinni hluta ferilsins og Murray hefur glímt við mikil meiðsli að undanförnu. Hann féll úr leik á Wimbledon í annarri umferð á síðasta ári og sagðist þá óviss um endurkomu á mótið.

Fyrr á árinu gaf hann hins vegar út að hann myndi taka þátt, bæði í einliða- og tvíliðaleik.

Það gerði hann eftir að hafa rifið liðbönd í ökkla á móti í Dubai í febrúar, hann jafnaði sig af þeim meiðslum og sneri aftur á tennisvöllinn á opna franska meistaramótinu sama dag og hann fagnaði 37 ára afmæli sínu þann 15. maí síðastliðinn.

Hann á fyrsta leik á Wimbledon á morgun gegn Tékkanum Tomas Machac og leikur svo hinn daginn í tvíliðaleik með bróður sínum Jamie Murray gegn Áströlunum John Peers og Rinky Hijikata.

„Mér líður töluvert betur en meiðslin eru flókin og enginn getur sagt nákvæmlega hvort ég muni ná mér. Læknateymið mun fylgjast með þessu og taka stöðuna daglega en mér finnst ég vera að endurheima styrk,“ sagði Murray í viðtali í morgun við Independent

Murray mun leika æfingaleik í dag og taka ákvörðun í kjölfarið hvort hann spili einliðaleikinn á morgun. Talið er að hann setji tvíliðaleikinn í forgang ef hann hefur ekki heilsu til að gera bæði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×