Tónlist

Sterk sumarást í sveitinni kveikti á­hugann á þýskunni

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Margrét Kristín eða Fabúla var að senda frá sér nýja tónlist.
Margrét Kristín eða Fabúla var að senda frá sér nýja tónlist. Hallur Karlsson

„Textalega séð hef ég alltaf verið talsvert persónuleg,“ segir tónlistarkonan Margrét Kristín Sigurðardóttir sem notast við listamannsnafnið Fabúla. Blaðamaður ræddi við hana um listina en hún hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi síðastliðna þrjá áratugi.

Þrjú lög á þremur tungumálum

„Ég set gjarnan tilfinningar og upplifun í nýjan búning, jafnvel söguform. Textarnir mínir byggja því oftast á eigin upplifunum og glímum eða reynslu og tilvist annarra. Hvað hljóðheiminn varðar og tónsköpunina þá kemur innblásturinn frá allri þeirri tónlist sem ég hef hlustað á frá barnæsku.

Allt býr þetta í undirmeðvitundinni, missterkt, en það er brunnur sem maður leitar ómeðvitað í og hefur frelsi til að vinna með að vild,“ segir Margrét en hún hefur hvað mest samið fyrir leikhús síðastliðin ár og sett upp tónleikhúsverk.

„Undanfarna mánuði hef ég svo fókuserað meira á lagasmíðar óháð leikhúsinu og gaf nýverið út þrjár smáskífur en fleira er í bígerð.“

Hún var að senda frá sér þrjú ný lög sem eru öll á mismunandi tungumálum.

„Ég hef gegnum tíðina aðallega samið á ensku og íslensku en eitt nýju laganna er hins vegar á norsku og annað á þýsku. Ég hef alltaf heillast að ólíkum tungumálum, ólíkum hreimum og mállýskum innan ólíkra tungumála, það tengist án efa tónlistar- og textaástríðunni.

Tjáning, blæbrigði, hljómfall, orð og tónar heilla mig. Lagið En halv appelsin samdi ég uppi í fjöllum í Noregi ásamt dönskum lagahöfundi. Þetta er ástarlag sem hefst á spurningunum: „Má bjóða þér hálfa appelsínu - og má það vera appelsínan mín? Viltu sykur, viltu salt…. viltu bragða allt?“

Norska er jú mitt annað tungumál, þar sem ég á norskan mann og hálfnorsk börn og bjó nokkur ár í Noregi,“ segir Margrét en hún á dótturina Emblu Wigum sem er með þekktari áhrifavöldum Íslands og soninn Ágúst Wigum sem er leikari og fer meðal annars með hlutverk í kvikmyndinni Ljósbrot.

Margrét leyfir sér að vera persónuleg í textasmíðinni og semur lög á ólíkum tungumálum.Saga Sig

Sveitaást sautján ára innblástur

„Þýska lagið er svo tökulag frá 1931 sem ég bara heillaðist að og varð að syngja og taka upp. Ég spila undir á gamla uppáhalds píanóið mitt, sem er frá svipuðum tíma og hefur svo mikla sál. Lagið heitir „Wenn ich mir was wünschen dürfte“ eða „Ef ég ætti eina ósk“ og kom út fyrst með Marlene Dietrich.

Þetta er eina lagið sem ég hef gefið út á þýsku, enda nota ég þýskuna sjaldan en ég stúderaði hana aðeins í HÍ. 

Svo vann ég nú eitt sumar á sveitahóteli í Þýskalandi þegar ég var sautján ára og upplifði þar sterka sumarást. Þá komst þýskan kannski svolítið undir húðina. “
Margrét heillaðist að þýskunni eftir að hún eyddi sumri í Þýskalandi sautján ára.Janne Talstad

Þriðja lagið sem Fabúla var að gefa út er svo á ensku og heitir Fading. 

„Það fjallar um upplifun mína af því að horfa upp á náinn aðstandanda glíma við „heilamistur“ en það er erfið glíma sem ófáir sem ná háum aldri þurfa að glíma við.

Í þessu lagi set ég mig í spor manneskjunnar sem ég elska og legg henni orð í munn. Gunnar Kvaran sellósnillingur leikur á selló í þessu lagi. Það var mikil upplifun að spila með honum.“

Hér má hlusta á lagið Fading:

Klippa: Fabúla - Fading

Nánd við áheyrendur líklega það besta

Margrét lifir og hrærist í tónlistinni og hefur tónlistin verið órjúfanlegur hluti af lífi hennar lengi.

„Það að vinna við tónlist er svolítið eins og ólíkir kaflar eða árstíðir og það er erfitt að gera upp á milli þeirra, hver hefur sína töfra. Þegar hugmynd kviknar og texti og lag verður til er svolítið eins og vorið með sinn fiðring.

Oftast koma orðin fyrst í mínu tilfelli, sem leiða svo tónana og ég er alltaf með blýant og bók við rúmið til að skrifa niður hugmyndir sem geta fæðst á nóttunni. Svo þróast hugmyndin og lögin fæðast við píanóið.

Útsetninga og upptökuferlið er næsta tímabil og það getur bæði verið snúið og óendanlega gefandi. Að fá inn annað tónlistarfólk til að segja söguna með sér með sinni nálgun og túlkun. Einstakir tónar frá meðleikendum geta stútfyllt hjartað af þakklæti.

Svo kemur að útgáfuferlinu, sem er kannski meira: „Jæja, nú þarf bara að bretta upp ermarnar“ tímabil (best að taka upp kartöflurnar) og svo að lokum kemur að lifandi flutningi tónlistarinnar, fjórðu árstíðinni, með tilheyrandi nánd við hlustendur. 

Þar er maður svolítið kominn á áfangastað eða kominn „heim“, því tilgangurinn með að segja söguna var jú að snerta annað fólk. Það er kannski það allra besta. Þegar þú upplifir nándina og samtalið við áheyrendur,“ segir Margrét að lokum.

Margrét segir að nándin og samtalið við áheyrendur sé besti hlutinn af tónlistinni.Saga Sig

Hér má hlusta á Fabúlu á streymisveitunni Spotify






Fleiri fréttir

Sjá meira


×