Innlent

Brottfararsalurinn rýmdur vegna grunsamlegrar tösku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Ákveðið var að rýma brottfararsalinn á Keflavíkurflugvelli undir miðnætti í nótt vegna grunsamlegrar tösku. Fjölmargir komu að aðgerðum en ekkert óeðlilegt reyndist í töskunni.

Fréttastofu barst ábending um sérsveitarbíl á blikkandi ljósum á leiðinni suður Reykjanesbraut á tólfta tímanum í gærkvöldi. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að óskað hafi verið eftir aðstoð sérsveitar vegna töskunnar.

Unnið hafi verið samkvæmt verklagi og brottfararsalurinn rýmdur. Það vildi vel til að þetta er sá tími sólarhringsins þegar umferðin er hvað minnst svo áhrif á starfsemi á Keflavíkurflugvelli voru minni en á öðrum tímum.

Úlfar segir starfsfólk flugvallarins og Isavia hafa komið að aðgerðum undir stjórn Lögreglunnar á Suðunesjum og sérsveitar. Eftir að taskan hafði verið skoðuð af sérfræðingi kom í ljós að engin hætta var á ferðum. Brottfararsalurinn var opnaður aftur og lífið hefur gengið sinn vanagang á flugvellinum síðan á öðrum tímanum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×