Körfubolti

NBA meistarar Boston Celtics til sölu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wyc Grousbeck fer fyrir eigendahóp Boston Celtics en hér er hann með NBA bikarinn eftir sigur liðsins í síðasta mánuði.
Wyc Grousbeck fer fyrir eigendahóp Boston Celtics en hér er hann með NBA bikarinn eftir sigur liðsins í síðasta mánuði. Getty/Billie Weiss

Fjárfestingahópurinn sem á meirihluta í Boston Celtics ætlar að selja félagið aðeins nokkrum dögum eftir að liðið varð meistari.

Boston Celtics tryggði sér NBA meistaratitilinn 18. júní síðastliðinn, þann átjánda í sögunni en um leið þann fyrsta frá árinu 2008.

Wyc Grousbeck og Steve Pagliuca fara fyrir eigendahópnum en þeir keyptu meirihluta í félaginu fyrir 360 milljónir dollara árið 2002.

Það er ljóst félagið selst fyrir miklu hærri upphæð nú enda hefur verðmæti NBA félaganna hækkað mikið á síðustu árum. ESPN segir frá.

Þrjú félög hafa verið seld frá 2023. Phoenix Suns fór á fjóra milljarða dollara, Milwaukee Bucks seldist á 3,5 milljarða dollara og nú síðast Dallas Mavericks fyrir 3,5 milljarða Bandaríkjadala í desember.

Framkvæmdastjórn fjárfestingahópsins gaf frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem kom fram að þeir búist við miklum áhuga á hlutum sínum.

Nú verður athyglisvert að sjá hvaða tilboð þeir fá í þetta sigursælasta NBA félag sögunnar en það er í það minnsta nokkuð öruggt að það mun kosta meira en fyrrnefnd þrjú félög. Fjórir milljarðar dollara eru annars 558 milljarðar í íslenskum krónum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×