Einlægt ástarlag upphafið
Gauti hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi í yfir tvo áratugi. Hann byrjaði í rappinu en hefur á undanförnum árum leikið sér með aðra stíla og þá sérstaklega dægurlögin. Sem dæmi má nefna lagið Klisja sem kom út árið 2022 og verður fyrsta lag plötunnar. Lagið frumflutti Gauti á brúðkaupsdaginn og söng til Jovönu Schally, eiginkonu hans.
„Klisja gaf góðan grunn af því hvert mig langaði að taka þessa plötu. Þó lögin séu öll mismunandi þá spruttu þau upp í kringum Klisjuna, “segir Gauti.
Hér má heyra lagið Klisja:
„Ekki skynsamlegt að kveikja í mér“
Upprunalega hugmyndin fyrir plötuumslagið var að kveikja bókstaflega í Gauta sjálfum en eftir stutta heimavinnu var algjörlega hætt við það.
„Við áttuðum okkur fljótt á að það væri ekki skynsamlegt að kveikja í mér,“ segir Gauti hlæjandi og bætir við:
„Í staðinn var ákveðið að ljósmyndarinn Anna Maggý myndi taka myndir af mér í fjöru og fara svo með þær upp í sveit þar sem hún kveikti í þeim til að ná hinu fullkomna útliti. Myndirnar eru svo flottar að margir halda að þær séu unnar í tölvu, sem þær eru ekki.“

Platan „Fullkominn dagur til að kveikja í sér“ inniheldur að sögn Gauta allan tilfinningaskalann, allt frá gleði til sorgar, og segist hann búast við því að hún hitti í mark hjá breiðum hópi hlustenda.
Gauti er þá sérstaklega spenntur fyrir titillagi plötunnar, sem hann syngur ásamt söngvaranum Birni Jörundi og kórnum Fjallabræðrum.
„Það er svo gaman að öskursyngja með þessu lagi. Þetta var upprunalega bara lag flutt af mér en mér fannst alltaf eins og ég væri að stíla Björn Jörund í einum kafla af laginu. Það var þá annað hvort að breyta því eða einfaldlega fá Björn Jörund með í lagið, sem við gerðum. Það var virkilega góð ákvörðun.“

Fullt af þversögnum og fyndnar hugsanir
Aðspurður hvaðan titillinn hafi komið til hans segir Gauti:
„Það er smá flókið að lýsa þessu en mér finnst þetta svo fyndin pæling. Ekki að þessar hugsanir sæki á mig en þetta kom til mín þegar ég var að semja titillagið. Það er hægt að yfirfæra þetta á svo margt.
Í dag er fullkominn dagur til að „fokka“ sér upp, í dag er fullkominn dagur til að fara á fyllerí eða eyðileggja fyrir sér, það er ótrúlega merkilegt að þetta sé hugsun sem fólk getur vaknað með. Svo er auðvitað líka hægt að hugsa til dæmis í dag er fullkominn dagur til að gera eitthvað í mínum málum.
Titillagið fer líka stöðugt í þversagnir þar sem ég syng um að eitthvað sé næs en svo eru slæmar hliðar. Ég syng til dæmis um að vera þakklátur fyrir þögnina á morgnana og hvað hún gefur mér en bæti svo við að það sé óhugnanlegt hve einmanaleg hún er,“ segir Gauti að lokum.

Platan er unnin í samvinnu við Þormóð Eiríksson, Halldór Gunnar og Björn Val Pálsson.