Körfubolti

Enginn vildi tala við hann en nú fær hann rúma þrjá milljarða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Goga Bitadze treður boltanum í körfuna í leik með Orlando Magic.
Goga Bitadze treður boltanum í körfuna í leik með Orlando Magic. Getty/Todd Kirkland

Margir leikmenn hafa fengið stóra samninga í NBA deildinni síðustu daga en sumir höfðu mjög gaman að því að sjá einn leikmann fá nýjan samning.

Fyrir fimm árum síðan var georgíski körfuboltamaðurinn Goga Bitadze valinn átjándi í nýliðavalinu af liði Indiana Pacers. 

Þá vakti talsverða athygli mynd frá blaðamannafundi hans þar sem enginn blaðamaður sýndi honum áhuga en allir söfnuðust í kringum annan leikmann sem var valinn í nýliðavalinu.

Bitadze greyið leit út eins og illa gerður hlutur. Á meðan allir vildu vita hvað Zion Williamson hafði að segja þá kom enginn til hans.

Þessi 211 sentímetra og 113 kílóa miðherji hefur náð að fóta sig í NBA deildinni síðan. Bitadze hefur spilað í NBA í fimm tímabil og alls 249 leiki. Indiana Pacers lét hann reyndar fara á miðju 2022-23 tímabilinu og hann samdi í framhaldinu við Orlando Magic.

Bitadze var með 5,0 stig og 4,6 fráköst á 15,4 mínútum í leik með Orlando á síðasta tímabili og hann var með meira en eina stoðsendingu og eitt varið skot að meðaltali.

Nú hefur hann fengið nýjan þriggja ára samning hjá Magic og fær fyrir hann 25 milljónir Bandaríkjadala eða 3,4 milljarða íslenska króna.

Þetta er langt frá því að vera stærsti samningurinn sem hefur verið gerður á síðustu dögum en hann þykir táknrænn ekki síst vegna myndarinnar sem má sjá hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×