Erlent

Þver­taka fyrir að Biden sé efins um fram­boð

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Biden ætlar alla leið. Hér stappar hann stálinu í stuðningsmenn eftir sjónvarpskappræður gegn Donald Trump.
Biden ætlar alla leið. Hér stappar hann stálinu í stuðningsmenn eftir sjónvarpskappræður gegn Donald Trump. getty

Í tilkynningu talsmanns Hvíta hússins er þvertekið fyrir að Joe Biden Bandaríkjaforseti sé efins um að halda framboði sínu til forseta til streitu. Tilkynningin kemur í kjölfar fréttar um að Biden hefði tjáð nánum bandamanni að hann væri að vega og meta það að hætta við.  

Nánar tiltekið greindi New York Times frá því að Biden hefði tjáð bandamanni að hann hefði efasemdir um framboðið. Um þessar efasemdir hafði fjölmiðillinn eftir bandamanninum:

„Hann veit að ef hann á tvær svipaðar uppákomur til viðbótar, þá erum við á allt öðrum stað.“ Vísar heimildarmaðurinn þar til frammistöðu Biden í forsetakappræðum í síðustu viku þar sem hann átti erfitt uppdráttar. 

Biden kemur fram opinberlega á nokkrum stöðum næstu daga. Þar á meðal í viðtali við fréttaveitu ABC og framboðsviðburðum í Pennsylvaníu og Wisconsin. 

Andrew Bates, talsmaður Hvíta hússins, hafnaði fyrrgreindum fréttaflutningi á X í dag.

„Þessi staðhæfing er algjörlega ósönn. Ef New York Times hefðu gefið okkur meira en sjö mínútur til þess að bregðast við, hefðum við sagt þeim það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×