Innlent

Kol­beinn fer ekki fyrir Lands­rétt

Jón Þór Stefánsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson er fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta.
Kolbeinn Sigþórsson er fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta. Vísir/Vilhelm

Sýknudómi Kolbeins Sigþórssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í fótbolta, verður ekki áfrýjað til Landsréttar.

Fyrir rétt rúmum mánuði var Kolbeinn sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness af ákæru um nauðgun og kynferðisbrot gegn barnungri stúlku. Meint brot voru sögð hafa átt sér stað á sunnudagskvöldi í júní árið 2022.

Sjá nánar: Dómurinn segir margt á huldu í máli Kol­beins

Ríkissaksóknari tók ákvörðun um hvort áfrýja skyldi dómnum eða ekki, og hann ákvað að gera það ekki. RÚV greinir frá þessu.

Kolbeini var gefið að sök að nýta sér yfirburði sína yfir stúlkunni, draga niður nærbuxur hennar og strjúka kynfærum hennar fram og til baka mörgum sinnum. Samkvæmt heimildum fréttastofu er stúlkan á yngsta grunnskólastigi.

Kolbeinn Sigþórsson var landsliðsmaður í fótbolta, en hann lék 64 leiki fyrir landsliðið og skoraði 26 mörk.

Hann hefur áður verið sakaður um ofbeldi, meðal annars kynferðislegt, gegn tveimur konum. Það á að hafa átt sér stað haustið 2017 og var það mál útkljáð með samkomulagi um miskabætur vorið 2018. Kolbeinn neitaði ávallt sök í því máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×