Sport

Andrea svekkir sig ekki á mann­legum mis­tökum

Aron Guðmundsson skrifar
Andrea Kolbeinsdóttir tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í tíu þúsund metra hlaupi í Ármannshlaupinu í fyrradag en mun ekki fá tíma sinn og bætinguna þar, líkt og aðrir hlauparar, skráða í afrekaskrá FRÍ.
Andrea Kolbeinsdóttir tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í tíu þúsund metra hlaupi í Ármannshlaupinu í fyrradag en mun ekki fá tíma sinn og bætinguna þar, líkt og aðrir hlauparar, skráða í afrekaskrá FRÍ. Mynd: Frjálsíþróttadeild Ármanns

Þeir hlauparar sem tóku þátt í Ár­manns­hlaupinu í fyrradag munu ekki fá af­rek sín skráð í af­reka­skrá Frjáls­í­þrótta­sam­bands Ís­lands. Í til­kynningu segir að hlaupa­leiðin teljist of stutt en fimm­tíu og átta metra vantaði upp á metrana tíu þúsund sem hlaupararnir áttu að hlaupa. Ein þeirra sem þreytti hlaupið í fyrradag er Andrea Kol­beins­dóttir sem tryggði sér Ís­lands­meistara­titilinn í greininni með því að koma fyrst í mark í kvennaflokki.

„Auð­vitað er þetta svekkjandi fyrir alla. Það voru margir sem að hlupu þarna í fyrradag sem að voru að bæta sig. Bætingar sem að verða svo ekki teknar gildar,“ segir Andrea í sam­tali við Vísi en hún stóð uppi sem sigur­vegari Ár­manns­hlaupsins, tíu kílómetra götuhlaupi, í kvenna­flokki á tímanum 34:08. Þegar búið er að taka skekkjuna á hlaupa­lengdinni með í reikninginn er hún samt að bæta sinn besta tíma í greininni frá upp­hafi sem er skráður 35:00. Bæting sem verður hins vegar ekki skráð í af­reka­skránna vegna metranna fimmtíu og átta sem vantaði upp á.

Andrea og Arnar Pétursson stóðu uppi sem Íslandsmeistarar í tíu þúsund metra hlaupi utanhúss í fyrradag eftir sigur í Armannshlaupinu.Mynd: Frjálsíþróttadeild Ármanns

Fram kemur í til­kynningu frá frjáls­í­þrótta­deild Ár­manns, umsjónaraðila hlaupsins, að mann­leg mis­tök megi rekja til þess að fimm­tíu og átta metra vantaði upp á þá tíu þúsund sem mynduðu hlaupa­leiðina en sökum fram­kvæmda á henni þurfti á síðustu stundu að breyta hlaupaleiðinni.

„Ef að ég hugsa út í þetta út frá sjálfri mér þá taldi ég upp­haf­lega að ég væri að bæta minn besta tíma í tíu kíló­metra götuhlaupi um fimm­tíu sekúndur. Hlaupið var fimm­tíu og átta metrum of stutt og ég gæti því bætt um fimm­tán sekúndum við tímann minn í fyrradag til að jafna þá skekkju út. Þá sé ég að ég væri enn að bæta minn besta tíma í greininni. 

Ég er því alveg sátt með tímann minn þrátt fyrir að ég fái hann ekki lög­lega skráðan í af­reka­skránna. Þá stendur Ís­lands­meistara­titillinn enn þá þrátt fyrir að hlaupið sé ekki lög­legt. Þannig að þegar að upp er staðið eru ef­laust margir hlauparar sem standa eftir pirraðri en ég.“

Andrea Kolbeinsdóttir hefur komið víða við á sínum hlaupaferli til þessa og unnið hvert mótið á fætur öðru hér á landiVÍSIR/HULDA MARGRÉT

Enginn að gera þetta að leik sínum

En hefurðu lent í því áður að mæld vega­lengd í keppnis­hlaupi sé of stutt? Því maður hefur nú heyrt af því áður að slíkt hafi gerst.

„Já ég hef lent í þessu einu sinni áður og ein­mitt í tíu kíló­metra hlaupi en þar var skekkjan tölu­vert meiri. Það hlaup var eitt­hvað um átta hundruð metrum of stutt. Það föttuðu það allir bara um leið og þeir komu yfir mark­línuna. En hlaupið í fyrradag var svo ó­trú­lega lítið of stutt. Maður var ekki alveg viss þegar að maður kom í mark hvort þetta væri lög­legt hlaup eða ekki. Þegar að ég kem í mark lít ég á úrið mitt og það sýnir mér að ég sé búin að hlaupa 9,98 kíló­metra. Ég fer þá strax að hugsa að þetta hlaup hafi mögu­lega verið of stutt. Þetta kom mér því ekki á ó­vart.

Það var hins vegar enginn að gera það að leik sínum að hafa þetta hlaup of stutt. Það var enginn að gera þetta viljandi. Þarna var náttúru­lega verið að hlaupa nýja leið frá því sem hefur verið gert áður. Það voru ein­hverjar fram­kvæmdir sem sköruðust á við þessa nýju leið og því þurfti að breyta henni ör­lítið bara með mjög skömmum fyrir­vara. Maður skilur þetta því ó­trú­lega vel að svona skyldi hafa gerst. Þótt það sé svekkjandi.“

Enn einn Ís­lands­meistara­titillinn í hús hjá Andreu og ekki er langt í næsta hlaup.

„Alltaf gaman að fá Ís­lands­meistara­titil. Ég er akkúrat á leiðinni norður á Akur­eyri núna þar sem að í kvöld fer fram Ís­lands­mótið í hálfu mara­þoni.“

Andrea á harða spretti í Ármannshlaupinu í fyrradagMynd: Frjálsíþróttadeild Ármanns

Hefur verið óstöðvandi

Andrea hefur átt góðu gengi að fagna upp á síð­kastið á Meistara­móti Ís­lands á Akur­eyri um síðustu helgi stóð hún uppi sem sigur­vegari í 5000 metra hlaupi, 3000 metra hindrunar­hlaupi, þar sem að hún á sjálf Ís­lands­metið í greininni, og svo 1500 metra hlaupi.

„Það hefur ekki gerst áður, eftir minni bestu vitund, að öll þessi hlaup séu á dag­skrá á innan við viku tíma­bili. Það er bara skemmti­leg á­skorun að glíma við það.“

En er ekkert mál að skipta á milli þessara mis­munandi tegunda hlaupa á þessum knappa tíma?

„Mér finnst það bara mjög skemmti­legt að hafa þetta svona fjöl­breytt. Fyrir mitt leiti finnst mér þetta mjög svipaðar greinar, kannski sér í lagi ef maður tekur fjalla­hlaupin, sem maður stundar líka, með í þetta. Það er bara geggjað að hafa vera búin að vinna smá í hraðanum um síðustu helgi. Það nýtist mér vel þegar komið er í þetta tíu kíló­metra hlaup í fyrradag sem og hálfa mara­þonið í kvöld.“

Hættir ekki að hlaupa

Þá mun Andrea ekki taka upp á því að slaka á eftir hálfa mara­þonið á Akur­eyri í kvöld.

„Það verður stutt hvíld því ég er búin að skrá mig í fimm­tíu kíló­metra Dyr­fjalla­hlaupið núna á laugar­daginn. Það er kannski smá klikkað og vit­leysa í mér en ég lít á það sem svona skemmti­legt hlaup og svo keyri ég á þetta alla leið í Lauga­vegs­hlaupinu eftir viku.“

Andrea. Maður fer ekki í þetta prógram nema að hafa ást­ríðu fyrir því að hlaupa. Þú elskar þetta er það ekki?

„Það er bara ná­kvæm­lega þannig. Það kannski sést að ég elska að hlaupa mikið því ég er eigin­lega að keppa allt of mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×