Innlent

Syngjandi hundur í Mos­fells­bæ

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mæðgurnar, Anna Vilborg og Brynhildur Ásta með syngjandi hundinn sinn.
Mæðgurnar, Anna Vilborg og Brynhildur Ásta með syngjandi hundinn sinn. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hundurinn Snjólfur í Mosfellsbæ er engin venjulegur hundur því það allra skemmtilegasta sem hann gerir er að syngja. Röddin brenglaðist reyndar aðeins í honum þegar hann var geldur á dögunum.

Þegar heimasætan í Laxatungu spilar á píanóið þá tekur Snjólfur til sinna ráða og syngur með eins og engin sé morgundagurinn.

„Hann er alltaf til í að syngja og stundum þegar ég er að æfa mig á píanóið þá þarf ég að láta einhvern fara í göngutúr með hann á meðan svo ég heyri í sjálfri mér því hann syngur svo hátt,” segir Brynhildur Ásta Sævarsdóttir, 11 ára píanóleikari.

En hvernig hundur er Snjólfur?

„Hann er bara algjör knúsari, bara dúlla og hann elskar að syngja og leika,” bætir Brynhildur við.

Heldur þú að þetta geti verið eitthvað af því hann er pirraður á píanóinu, honum þyki þetta leiðinlegt, getur það verið eitthvað svoleiðis?

„Nei, ég held að honum finnist þetta bara gaman því hann er alltaf við píanóið, er alltaf að spyrja, spilaðu, spilaðu og spilaðu.”

Snjólfur og Brynhildur eru líka mikið út í fótbolta og milli söngatriða með píanóinu.

Snjólfur að syngja og Brynhildur Ásta að spila á píanóið.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað segir mamman á heimilinu um Snjólf?

„Hann er algjör snillingur, hann er ósköp skemmtilegur,” segir Anna Vilborg Sölmundardóttir.

En það var eitthvað sem gerðist um daginn, hann var geldur og hvað þá?

„Já, hann fer oft að hósta inn í miðju lagi, það er eins og það vanti kraftinn í hann. Ég veit ekki hvort að það tengist eitthvað en hann er búin að láta svoleiðis eftir að hann var geldur,” segir Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×