Körfubolti

LeBron fær meira borgað næstu tvö ár en Jordan fékk allan ferilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James með Michael Jordan á góðri stundu.
LeBron James með Michael Jordan á góðri stundu. AP/Ron Schwane

LeBron James er í eilífum samanburði við Michael Jordan en oft er rifist um það hvor þeirra sé besti körfuboltamaður allra tíma.

Það hefur auðvitað margt breyst síðan að Jordan var kóngurinn í NBA deildinni.

Stærsta breytingin er líklega þegar kemur að launamálum leikmanna en launin hafa hækkað gríðarlega síðan á valdatíð Jordan á tíunda áratug síðustu aldar.

Jordan er enn í dag í hópi tekjuhæstu íþróttamanna heims þrátt fyrir að hafa ekki spilað í meira en tuttugu ár. Þar koma til tekjur hans frá auglýsingarsamningnum og öðru því tengdu.

Þegar kemur að launum hans sem leikmanns þá var það ekki merkileg upphæð miðað við það sem leikmenn deildarinnar fá í dag.

LeBron James, sem heldur upp á fertugsafmælið sitt í desember, var að ganga frá nýjum tveggja ára samningi. Hann fær 104 milljónir dollara í laun fyrir þessi tvö tímabil.

Jordan fékk hins vegar samanlagt aðeins 94 milljónir dollara í laun allan leikmannaferil sinn sem náði frá 1984 til 2003 sem tveimur hléum eða nánar til getið 1984–1993, 1995–1998 og 2001–2003. Þetta eru fimmtán tímabil og það gera 6,3 milljónir dollara í meðallaun á tímabili.

James er því að fá meira næstu tvö ár en heildarlaun Jordan. Þessu er LeBron að ná þegar hann er 40 ára og 41 árs gamall. Hann fær 52 milljónir að meðaltali á tímabili næstu tvö ár en það gerir 7,2 milljarða í íslenskum krónum hvort tímabil.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×