Enski boltinn

Hringdi í Maríu á miðjum blaða­manna­fundi: „Ertu ekki að grínast?“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brighton & Hove Albion sýndi símtal Fran Kirby við Maríu Þórisdóttur á miðlum sinum.
Brighton & Hove Albion sýndi símtal Fran Kirby við Maríu Þórisdóttur á miðlum sinum. @bhafcwomen

Enska knattspyrnukonan Fran Kirby er á stórum tímamótum á sínum ferli því eftir áratug hjá Chelsea þá hefur hún nú yfirgefið félagið sem sjöfaldur Englandsmeistari.

Í gær var það opinberað að Kirby muni spila með Brighton & Hove Albion á komandi tímabili og verður þar með liðsfélagi hinnar norsk-íslensku Maríu Þórisdóttur.

Á kynningarfundi Kirby sem nýr leikmaður Brighton þá hringdi hún í Maríu og var auðvitað klædd í búning nýja félagsins.

„Ég er eiginlega smá stressuð. Af hverju er ég stressuð,“ spurði Fran áður en hún lét verða að því að hringja í Maríu.

Það er samt óhætt að segja að María hafi tekið fréttunum vel. Sú var sátt að vera búin að fá þennan nýjan liðsfélaga.

„Ertu ekki að grínast?,“ var það fyrsta sem kom upp úr Maríu og það hreinlega ískraði í henni af ánægju.

„Þetta er svo spennandi. Til hamingju. Þetta er svo svalt,“ sagði María.

„Við erum liðsfélagar á ný,“ sagði Fran en María lék með henni hjá Chelsea.

„Þú þekkir mig. Ég er eiginlega að fara gráta,“ sagði María eins og má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×