Enski boltinn

Hollenska marka­vélin semur við Manchester City

Aron Guðmundsson skrifar
Vivianne Miedema er orðin leikmaður Manchester City
Vivianne Miedema er orðin leikmaður Manchester City Mynd: Manchester City

Hollenski framherjinn Vivianne Miedema er orðin leikmaður Manchester City og skrifar hún undir þriggja ára samning við félagið. Tíðindi sem staðfesta að Miedema verður áfram í ensku ofurdeildinni en hún var áður á mála hjá Arsenal.

Miedema og Arsenal komust að samkomulagi um að leiðir myndu skilja eftir síðasta tímabil en sú hollenska hafði verið á mála hjá Norður-Lundúna félaginu síðan 2017 en lítið spilað undanfarin tvö tímabil eftir að hafa slitið krossband í desember árið 2022.

Ljóst þykir þó að ef Miedema nær að koma sér aftur almennilega af stað þá verður það mikill fengur fyrir Manchester City að hafa hana innan sinna raða. Miedema er markahæsti leikmaður ensku ofurdeildarinnar frá upphafi og þekkir það að vinna deildina.

Félög í Evrópu sem og Norður-Ameríku höfðu áhuga á að fá hana til liðs við sig en nú er orðið ljóst að hún verður um kyrrt á Englandi.

Fremsta lína Manchester City, sem laut í lægra haldi gegn Chelsea í baráttunni um enska meistaratitilinn á síðasta tímabili á lakari markatölu, er farin að líta mjög vel út fyrir komandi tímabil en auk Miedema hefur City markahæsta leikmann síðasta tímabils Bunny Shaw, Lauren Hemp, Chloe Kelly og Mary Fowler innan sinna raða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×