Sport

„Von­brigði“ að að­eins fari fimm frá Ís­landi á Ólympíu­leikana

Aron Guðmundsson skrifar
Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, segir það vissulega vonbrigði að aðeins stefni í að Ísland eigi fimm fulltrúa á Ólympíuleikunum í París.
Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, segir það vissulega vonbrigði að aðeins stefni í að Ísland eigi fimm fulltrúa á Ólympíuleikunum í París. Vísir/Ívar

Af­reks­stjóri Í­þrótta- og Ólympíu­sam­bands Ís­lands segir það von­brigði að eins og staðan sé í dag bendi allt til þess að Ís­lands eigi að­eins fimm full­trúa á Ólympíu­leikunum í París í sumar. Á sama tíma sér hann hins vegar enda­lausa mögu­leika í í­þrótta­hreyfingunni hér á landi.

Ólympíu­förum Ís­lands fjölgaði um einn í gær þegar það var stað­fest að kúlu­varparinn Erna Sól­ey Gun­nars­dóttir myndi hljóta sæti á Ólympíu­leikunum í París, fyrst ís­lenskra kven­kyns kúlu­varpara. Þar með var ó­vissunni um það hvort að Ís­land færi án keppanda í frjálsum í­þróttum á leikanna, þá í fyrsta skipti síðan 1908, eytt.

Við skulum fara með þessa fimm og standa okkur vel. Síðan förum við með miklu fleiri næst

Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ

Það er þreyta í hreyfingunni

Enn er veikur mögu­leiki til staðar á því að full­trúum Ís­lands fjölgi en það bendir þó allt til þess að þeir verði að­eins fimm. Af­reks­stjóri ÍSÍ, Vé­steinn Haf­steins­son, segir það vissu­lega von­brigði.

Eiffel turninn í París hefur fengið smá yfirhalningu í tilefni Ólympíuleikanna sem fram fara í borginniVísir/Getty

„Ef við tökum fyrst þá já­kvæða. Þá er alveg of­boðs­lega mikið í gangi hérna á Ís­landi. Ég ber mikla virðingu fyrir ís­lenskri í­þrótta­hreyfingu. Miðað við hvað fjár­magnið sem hreyfingin fær er lítið, hvað mann­eklan er mikil hjá sér­sam­böndunum sem eru á hælunum hérna fjár­hags­lega. Þetta gengur illa, það er þreyta í hreyfingunni.

Ég kom hingað til lands að búa til nýja af­reks­í­þrótta­stefnu með allri hreyfingunni. Það er komið vel af stað. Ég er rosa bjart­sýnn fyrir fram­tíðinni hér. Ég gerði mér alveg grein fyrir stöðunni. Núna var ég að búast við, vonast til, að karlalandsliðið okkar í handbolta færi á Ólympíuleikana í París og kannski átta til níu ein­staklingar til viðbótar. Eins og staðan er núna erum við að fara með fimm ein­stak­linga. Það eru von­brigði. 

Á sama tíma sé ég þó bara enda­lausa mögu­leika. Ég sé að á Ólympíu­leikunum árið 2028 gætum við farið með tvö til fjögur lið. Jafn­vel fjögur lið 2032. Þá er ég að tala um fót­bolta kvenna, körfu­bolta karla, hand­bolta karla og kvenna. Þetta er allt mjög já­kvætt. Síðan er fullt af ungu fólki hérna að koma upp. Frjálsum, sundi, klifri, júdó, bog­fimi, fim­leikum og fleiri greinum.“

Efniviðurinn til staðar en fjármunir ekki

Dæmi eru um að Ís­lendingar hafi verið mjög ná­lægt því að tryggja sér sæti á Ólympíu­leikum þessa árs.

Guðni Valur Guðnason býr sig undir að þeyta kringlunni á Ólympíuleikunum í Tókýó. Hann verður ekki með á Ólympíuleikunum í ParísGetty/Patrick Smith

„Kraft­lyftinga­konan Ey­gló Fann­dal Sturlu­dóttir er dæmi um það. Hún er tveimur kílóum í lyftu frá því að komast inn á leikana. Hún er í heimsklassa en kemst ekki inn. Það er of­boðs­lega grát­legt. Ég er ó­trú­lega ó­sáttur með að hún komist ekki inn því hún er svo rosa­lega góð. Svo er ég náttúru­lega mjög ó­sáttur með að hand­bolta­lands­liðið hafi ekki komist á leikana sem og tveir af okkar bestu frjáls­í­þrótta­mönnum, Guðni Valur Guðnason (kringlukast) og Hilmar Örn Jónsson (sleggjukast). Ég er ó­sáttur við að þeir fari ekki á leikana og standi sig hrein­lega betur. Við þurfum bara að skoða það.“

Það sem er já­kvætt í stöðunni, að mati Vésteins, er að hér á Íslandi er allt morandi í efni­við.

„Fram­tíðin rosa­lega björt. En við verðum að fá fjár­magnið og skipu­lagningu. Við erum að vinna í því.“

Eigum ekki að þurfa boðssæti

Sund­kappinn Anton Sveinn McKee er eini Ís­lendingurinn sem náði lág­marki í sinni grein inn á Ólympíu­leikana. Snæ­fríður Sól (sund) og Erna Sól­ey (kúluvarp) komast inn í gegnum styrk­leika­lista í sinni grein og svo fá skot­í­þrótta­maðurinn Hákon Þór Svavars­son og þrí­þrautar­konan Guð­laug Edda Hannes­dóttir boðs­sæti sem þjóðir með færri en tíu þátttakendur á Ólympíuleikunum geta sótt um að fá.

„Við eigum ekkert að þurfa vera með þessi boðs­sæti. Eigum bara að geta verið með nógu gott fólk og það marga kepp­endur að við þurfum ekki að vera þessi litla þjóð að þurfa ein­hver boðs­sæti,“ segir Vésteinn. „Það er stefnan og ég hef alveg fulla trú á því að það verði raunin hjá okkur í fram­tíðinni.“

Anton Sveinn McKee náði ólympíulágmarkiSundsamband Íslands

„Það gengur ekki ef við ætlum að vera best í heimi“

Vésteinn segir stað­reyndina vera þá að í­þrótta­hreyfingin þurfi fjór­falt til fimm­falt meira fjár­magn en hún er að fá í dag til þess að bæta af­reks­starfið og um­gjörð í­þrótta­fólksins okkar sem sé ekki nógu góð. Ný af­reks­stefna, sem unnið hefur verið að undan­farið ár, verður tekin í gildi á næsta ári.

Þú talar um von­brigðin að við séum, eins og staðan er núna, bara að fara með fimm í­þrótta­menn á Ólympíu­leikana. Hvar liggja þessi von­brigði? Er það hjá í­þrótta­mönnunum sjálfum eða um­gjörðinni og þeim að­stæðum sem við erum að bjóða upp á?

„Það er allt í sjálfu sér. Um­gjörðin er ekki nógu góð. Fjár­magnið allt of lítið. Þjálfara­stéttin á Ís­landi er jafn­vel ekki til því fólk er bara ekkert að vinna við þetta í fullu starfi. Í mörgum greinum eru þetta bara „eftir klukkan fimm“ þjálfarar eins og Norð­mennirnir kalla þetta. Fólk í annarri vinnu með fram þjálfara­starfinu sem það sinnir kannski í sjálf­boða­vinnu. Það gengur ekkert ef við ætlum að vera best í heimi. 

Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir í þríþraut á Ólympíuleikunum í París.

Guðla„Ég er kominn hingað heim til þess að hjálpa hreyfingunni við að ná árangri á heims­mæli­kvarða, ná að rækta ólympíu­meistara og heims­meistara fram­tíðarinnar í ung­linga- og full­orðins­flokki. Um­gjörðin þarf að vera miklu betri. Við þurfum fjór­falt til fimm­falt meira fjár­magn. Það er verið að vinna í að afla þess fjár­magns frá ríki sem og at­vinnu­lífinu.

Árið 2025 inn­leiðum við nýja stefnu sem unnið hefur verið í að setja saman undan­farið eitt ár. Við þurfum miklu betri um­gjörð. Þurfum að endur­skipu­leggja hreyfinguna. Mennta þjálfara og að í­þrótta­fólkið okkar átti sig á því hvað þau þurfi að gera til þess að verða best í heimi. Efni­viðurinn er til. Hrá­efnið er til. En við þurfum að bæta okkur mikið. Ég er rosa­lega bjart­sýnn af því að við getum bætt okkur svo mikið. Ef þetta kemst á lag­girnar þá er ég gagn­rýnin á þá stað­reynd að við séum bara að fara með fimm í­þrótta­menn á Ólympíu­leikana í sumar. Það er allt of lítið. Við eigum að fara með miklu fleiri. En ég er rosa­lega já­kvæður fyrir næstu fjórum til átta árum. En þá verðum við öll að vinna saman.“ 

„Þið verðið að trúa því“

Ríkis­stjórn, þing­menn og aðrir verði að átta sig á stöðunni. 

„Við þurfum að fá miklu meira fjár­magn frá ríkinu. Þurfum miklu meiri stuðning sveitar­fé­laganna. Þurfum miklu meiri stuðning at­vinnu­lífsins. Þá getum við orðið best í heimi í mis­munandi í­þrótta­greinum. Þið verðið að trúa því. Ég er búinn að vera úti í heimi í öll þessi ár og ég sé að hér er allt morandi í efni­legum krökkum sem fara ekki alla leið en fara mjög langt miðað við hvað er lítið að sjálfu sér á bak­við það. En alltaf er það þessi dugnaður, elja og kapp­semi Ís­lendinga. Við erum með efni­við en förum bara upp að ákveðnu marki.“ 

Strákunum okkar tókst ekki að tryggja sig inn á Ólympíuleikana.Vísir/Vilhelm

„Eins og til dæmis fyrir mánuði síðan þegar að við erum með níu full­trúa í frjáls­í­þróttum sem eiga mögu­leika á að komast á Ólympíu­leikana, allir nokkuð góðir full­trúar, en þeir þurfa að fara og taka næsta skref. Það þarf líka í sundinu, hand­boltanum, fót­boltanum, körfunni og öðrum greinum. Við þurfum að taka þetta næsta skref. Og ég er rosa­lega spenntur fyrir því að það sé hægt að gera það.“

Gull 2032-2036?

Vé­steinn er mjög bjart­sýnn fyrir hönd í­þrótta­hreyfingarinnar hér á landi en í janúar árið 2023 var hann ráðinn í starf af­reks­stjóra ÍSÍ til fimm ára.

„Ég er já­kvæður maður. Þjálfari. Trúi á það góða. Trúi að við getum gert þetta saman. Þetta gengur út á að allir komi að borðinu. Ríkið, sveitar­fé­lögin, í­þrótta­hreyfingin, at­vinnu­lífið, skóla­kerfið. Ég er búinn að vera dug­legur í því að fara og tala við alla þessa aðila. Ég fæ ekkert nema með­vind í þessu starfi mínu. Þetta tekur tíma. Tekur bara tíu ár. Bara tíu ár. Ís­lendingurinn er svo­lítið í núinu. Við erum svo­lítið lokuð inn í því. Ég skil það alveg vegna þess að þetta er lítið fjár­magn og svo fram­vegis. 

Það segja kannski margir að þetta sé rosa­lega nega­tíft að við séum bara að fara með þessa fimm í­þrótta­menn á leikana. Nei. Við skulum fara með þessa fimm og standa okkur vel. Síðan förum við með miklu fleiri næst. En 2032 til 2036 þá vinnum við gull.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×