Enski boltinn

Sky biður Notting­ham For­est af­sökunar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gary Neville þarf að halda sig á mottunni þegar fram líða stundir.
Gary Neville þarf að halda sig á mottunni þegar fram líða stundir. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Sky Sports hefur beðið Nottingham Forest afsökunar á ummælum sem sparkspekingurinn Gary Neville lét falla á síðustu leiktíð.

Þann 21. apríl síðastliðinn sendi Forest frá sér yfirlýsingu þar sem PGMOL, dómarasamband ensku úrvalsdeildarinnar, var harðlega gagnrýnt. Vildi Forest meina að það væri svo gott sem verið að dæma þá niður um deild en félagið hafði margoft áður kvartað yfir dómurum deildarinnar.

Skömmu áður hafði dómarinn fyrrverandi mark Clattenburg ráðinn félagsins sem sérstakur dómararáðgjafi en hann sagði starfi sínu lausu í upphafi maímánaðar.

Í þættinum Super Sunday á Sky Sports gagnrýndi Neville félagið harkalega og biðst Sky afsökunar á því. Hefur Gary samþykkt að nota ekki aftur orð svipuð þeim sem voru látin falla í útsendingunni.

Í yfirlýsingu Sky Sports segir að sjónvarpsstöðin biðji Forest afsökunar á ummælunum og þeim skaða sem þau gætu hafa valdið.

Nottingham Forest hélt sætu sínu í ensku úrvalsdeildinni og verður þar á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×