Enski boltinn

Jóhann lenti ó­­vænt í flugi með for­manninum og fer ekki fet

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson er hæstánægður með að halda áfram hjá Burnley.
Jóhann Berg Guðmundsson er hæstánægður með að halda áfram hjá Burnley. burnleyfootballclub.com

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, segir að það að hafa óvænt verið í sama flugi og Alan Pace, formaður Burnley, á heimleið frá Amsterdam hafi haft sitt að segja um að hann verði áfram leikmaður enska félagsins, eftir að hafa kvatt það í vor.

Jóhann kvaddi Burnley í maí eftir að liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni, og beygði af í einlægu viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum félagsins.

Það duldist því engum hve annt Jóhanni er um Burnley en hann kom til félagsins frá Charlton fyrir átta árum síðan, um það leyti sem hann sló í gegn með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi.

Nú er hins vegar orðið ljóst að Jóhann er alls ekki á förum frá Burnley og yfir því er hann himinlifandi:

„Já! Ég er kominn aftur og ég er ótrúlega ánægður! Þetta félag hefur svo mikla þýðingu fyrir mig. Það var erfitt að skilja við það í þessari stöðu, eftir fallið. Ég vildi ekki fara. Ég vil hjálpa liðinu að komast aftur í úrvalsdeildina þar sem það á heima. Ég vissi líka að fótboltaferli mínum væri hvergi nærri lokið,“ segir Jóhann á heimasíðu Burnley.

Jóhann mun leika undir stjórn nýs knattspyrnustjóra, Scotts Parker sem áður hefur stýrt Bournemouth og Fulham, eftir að Vincent Kompany var ráðinn stjóri Bayern München.

Jóhann, sem er 33 ára, segir fyrrnefnt flug með formanni Burnley hafa stuðlað að því að hann sneri aftur til félagsins.

„Ég var í sama flugi og Alan Pace frá Amsterdam og við áttum gott samtal um félagið og hvað við gætum gert til að koma því aftur í úrvalsdeildina þar sem það á heima, og hér er ég núna, aftur búinn að skrifa undir sem leikmaður Burnley. Ég er líka búinn að ræða við nýja stjórann og ég vil bara hjálpa liðinu að komast aftur í úrvalsdeildina,“ segir Jóhann.

„Það verður erfitt. Championship-deildin er gríðarlega erfið. En miðað við hæfileikana og reynsluna í þessum hópi þá getum við horft jákvæðum augum á komandi tímabil,“ segir Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×