Erlent

Sex­tán drepnir í loft­á­rás á skóla

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Af Gasasvæðinu.
Af Gasasvæðinu. getty

Að minnsta kosti sextán manns létust í loftárás Ísraela á skóla á Gasa-svæðinu. Ísraelski herinn kveðst hafa hæft hryðjuverkamenn sem hafi komið sér fyrir innan veggja skólans. 

Tugir særðust sömuleiðis í árásinni á skólann sem hýsti þúsundir flóttamanna frá Nuseirat flóttamannabúðunum, sem staðsettar eru á miðri Gasa-strönd. Þetta hefur breska ríkisútvarpið eftir heilbrigðisráðuneyti á Gasa sem er undir stjórn Hamas-liða.

Myndbönd af svæðinu sýna fullorðna sem börn forða sér frá svæðinu og hlúa að særðum.

Samkvæmt BBC héldu um sjö þúsund manns til í skólanum. Að sögn sjónarvotta hafi ísraelski herinn beint skotum á efri hæð skólans, sem staðsett er nálægt fjölförnum markaði. 

Í færslu á X staðfestir ísraelski herinn árásina en lýsir því sömuleiðis yfir að „fjölmörg skref“ hafi verið tekin til þess að minnka áhættu á því að óbreyttir borgarar verði fyrir árásunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×