Innlent

Lög­regla vopnaðist og skot­vopn haldlagt

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sérsveitarmenn á vettvangi í gær.
Sérsveitarmenn á vettvangi í gær. aðsend

Mennirnir tveir sem handteknir voru í tengslum við vopnamál í Rangárþingi ytra í gær eru lausir úr haldi. Hald hefur verið lagt á skotvopn en lögregla vill ekki staðfesta hvort skotum hafi verið hleypt af.

Líkt og greint var frá í gær voru tveir handteknir í aðgerðum lögreglu í Rangárþingi ytra í gær en lögregla naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra við aðgerðina. Í samtali við Vísi sagði ábúandi í Háfshverfi að nágrannar hans hefðu ógnað vinnumanni á gröfu með byssu og hleypt af skotum.

Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, staðfestir að hinir handteknu séu nú lausir úr haldi.

„Þetta snérist um erjur þarna á milli aðila og sérsveit kölluð til og lögregla vopnaðist, það er talað um vopn á vettvangi. Það voru tveir handteknir og vistaðir og í kjölfar yfirheyrslna voru þeir látnir lausir,” segir Jón Gunnar. Þetta hafi verið í gærkvöldi.

Hann staðfestir að hald hafi verið lagt á skotvopn, en kveðst ekki geta sagt til um hvort skotum hafi verið hleypt af byssunni. „Það er bara til rannsóknar á þessu stigi og við getum ekkert staðfest það eins og er,” segir Jón Gunnar, sem að öðru leyti getur ekki veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×