Erlent

Gerðu loft­á­rás á barna­spítala í Kænu­garði

Árni Sæberg skrifar
Ohmatdyt barnaspítalinn er illa farinn eftir árásir Rússa.
Ohmatdyt barnaspítalinn er illa farinn eftir árásir Rússa. Vlada Liberova/Getty

Minnst tuttugu almennir borgarar létust í loftárásum Rússa á fjölda borga í Úkraínu í dag. Meðal skotmarka Rússa var barnaspítali í Kænugarði.

Í frétt Reuters um málið er haft eftir Selenskí Úkraínuforseta að Rússar hafi skotið rúmlega fjörutíu eldflaugum á fjölda borga. Ýmsir innviðir, verslunarhúsnæði og íbúðarhúsnæði hafi orðið fyrir skemmdum í árásunum. Þar á meðal hafi verið helsti barnaspítali Kænugarðs. 

Haft er eftir embættismönnum í Kænugarði að sjö hafi látist í árásum á borgina og minnst 25 særst. Í Kryviy Rih, fæðingarborg Selenskís, hafi tíu látist og 31 særst, að sögn Oleksandr Vilkul borgarstjóra.

Þá hafi þrír látist í Pokrovsk í austurhluta Úkraínu þegar eldflaugar hæfði verksmiðju, að sögn héraðsstjórans í Donetsk.

„Allir viðbragðsaðilar hafa verið virkjaðir til þess að bjarga eins mörgum og mögulegt er. Heimurinn allur ætti að beita sér af fullum krafti til þess að binda enda á árásir Rússa,“ segir Selenskí í færslu á samfélagsmiðlinum Telegram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×