Skoðun

Til stuðnings Krist­rúnu Frostadóttur

Haukur Arnþórsson skrifar

Nú býðst sósíaldemókrötum og vinstri mönnum að sameinast um ábyrga stefnu í útlendingamálum – og fleiri málum. Ekki er óhugsandi að einhverjum hafi þótt mál til komið.

Nokkra leiðandi Samfylkingarmenn virðist klæja í lófana að fara í slag við nýja forystu í flokknum, einkum Kristrúnu Frostadóttur, og ganga þeir mismunandi djarflega fram meðan þeir brýna kutana. Þeir eru enn í fyrstu skrefunum, hikandi, en tilbúnir með hnífana í skúmaskotum. Kannski gera þeir þetta af því að nýja forystan höfðar greinilega til kjósenda – sem óvildarmenn hennar gerðu hins vegar ekki áður.

Vilhjálmur Þorsteinsson, sem lengi hefur verið leiðandi félagi í Samfylkingunni, er sem stendur músin sem læðist (meðan Helga Vala Helgadóttir og fleiri eru mýsnar sem stökkva), en hann skrifar á vegg sinn á Facebook í gær færslu um „mannréttindi“ og „ábyrgð í útlendingamálum“. Ég ætla að hlífa lesendum mínum við skrifum um vestræna borgaralega gildið mannréttindi - sem auðvitað verður ekki afgeitt með svart/hvítum yfirlýsingum – en segja nokkur orð um ábyrgð í útlendingamálum.

Ábyrgð í útlendingamálum

Vilhjálmur segir að ábyrgð í útlendingamálum felist í þjóðhagslegri hagkvæmni af því að flytja inn nýtt vinnuafl. Kalla má það hagfræðilega ábyrgð. Allt er það nú ágætt hjá honum – þótt augljóst sé hvert hann beinir atgeir sínum með svo einfeldingslegri nálgun. Hann veit betur.

Á málinu eru fleiri hliðar og ekki síður mikilvægar. Ég vil nefna „pólitíska ábyrgð“. Það er sú ábyrgð sem Samfylkingin (og raunar Sjálfstæðisflokkurinn) er að axla.

Hún tekur mið af „þjóðarviljanum“ – ég nefni það hugtak af því að það var fyrir nokkrum árum hugstætt mörgum fylgismönnum þjóðaratkvæðagreiðslna. En vill það sama fólk – fylgismenn þjóðaratkvæðagreiðslna – raunverulega að vilja almennings sé mætt í útlendingamálum, eða í öðrum málum þar sem stefna þess er önnur en almennings? Samfylkingin (og Sjálfstæðisflokkurinn) eru nákvæmlega að ganga til móts við almenning. Og í því felst pólitísk ábyrgð.

Af því að ábyrg borgaraleg pólitík felst ekki síst í því að hindra flokkadrætti og skautun – í þessu tilviki óvægna hægri þjóðernisstefnu.

Auðvitað er ekki öruggt að þjóðernishyggjunni verði haldið niðri með því að koma að einhverju leyti til móts við hana, en hörð lína, útilokun, fyrirlitning gagnvart stefnunni og að ásaka hana og fylgismenn hennar um hræðilegustu atburði evrópusögunnar – þjóðernisstefnunni sem nú ríður húsum í Evrópu og Bandaríkjunum – hefur leitt af sér mikla baráttugleði, mikla fylgisaukningu og hert hana í eldi andstreymis og var síst þörf á því. Hert hana hættulega.

Þetta sjáum við í Hollandi, Svíþjóð, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Finnlandi – að ekki sé minnst á Ungverjaland og Pólland. En tökum eftir – ekki í Danmörku.

Danska leiðin, sem sósíaldemókratarnir tóku upp – og Kristrún beinir kannski öðru auganu að – er að mæta vilja almennings í útlendingamálum. Það er mín afstaða sem þetta skrifa og hef rannsakað dönsk stjórnmálum um árabil – að stefnubreyting sósíaldemókratanna byggi á sterkri hefð í dönskum stjórnmálum, þeirri að hlusta á grasrótina. Sem við öll – ekki síst fylgjendur þjóðaratkvæðagreiðslna – viljum að íslensk stjórnvöld fylgi og að við höfum dönsk stjórnmál sem fyrirmynd.

Auk þess er stefnubreytingin alvarleg tilraun til að mæta ógn hægri þjóðernishyggjunnar með nýrri og annarri leið en hindrunum, fyrirlitningu og ásökunum. Hún virðist bera árangur.

Er þörf á þessu hér á landi? Getum við ekki bara notast við milda útlendingapólitík eins og verið hefur og haldið áfram að kalla almenning sem er neikvæður gagnvart henni rasista?

Útlínur hættunnar

Ég tel að í þjóðfélaginu, kannski einkum meðal eldra fólks, kraumi alvarleg hræðsla og andúð á mildri stefnu í útlendingamálum. (Og skjótið nú ekki sendiboðann!) Hræðsla og andúð sem ekki verður horft framhjá. Munum að hræðsla er öflugasta tæki stjórnmálamanna og stjórnvalda og getur fengið almenning til að gera ótrúlegustu hluti. Hún er ekki afl sem hlæja má að.

Ég tel að andúðin beinist að hælisleitendum og aðstöðu þeirra, félagslegum réttindum þeirra á Íslandi og réttindum til langra málaferla við yfirvöld á kostnað ríkisins. Þessu fylgir löng íslandsdvöl með fullum réttindum sem eru stöðugt umræðuefni í fjölmiðlum. Og illum hug til þeirra Íslendinga sem hagnast á þeim málarekstri og umstangi.

Þá byggir þjóðernishyggja þjóðarinnar ekki síst í varðstöðunni um tungumálið. Margir þola ekki að heyra bjagaða íslensku, aðrir þola ekki að vera afgreiddir í þjónustufyrirtækjum af enskumælandi fólki – og einhver hópur er harðdrægur í afstöðu sinnar til lýtalausrar íslensku og beinir spjótum sínum jafnvel að frjálslyndum Íslendingum. Gegn þessu hefur Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emerítus unnið mikilvægt starf, en nú er farið að draga mannorð hans í skítinn vegna þess.

Þá er ég ekki farinn að ræða um það fólk sem kemur hingað á grundvelli frjálss vinnumarkaðar, frá Evrópu. Því fólki gengur misvel að læra íslensku. Þá er ég ekki heldur farinn að ræða um helsta þjóðfélgsmein meðal þjóðarinnar – mein sem er við að gera fátækt fólk að helstu hatursmönnum sjálfrar þjóðfélagsgerðarinnar – sem er húsnæðisskortur á stór-reykjavíkursvæðinu og algert ábyrgðarleysi stjórnmálamanna gagnvart honum. Og nefndi ég andúð á þeim hluta aðflutts fólks sem heldur í menningu sína – sem í ákveðnum tilvikum gengur gegn mannréttindum og íslenskum gildum.

Og ef við lítum á hagfræðina hans Vilhjálms Þorsteinssonar, þá er að byggjast upp andúð á ferðamönnum – andúð sem gæti unnið ferðaþjónustunni, sem er ein helsta stoð velferðar þjóðarinnar, varanlegt tjón.

Hvað ber að gera?

Vera má að stjórnmálamennirnir þurfi að stunda ákveðna jafnvægislist, annars vegar milli útlendingaandúðar og mörgum birtingarmyndum hennar og hins vegar einarðrar kröfu um mannúð gagnvart þjáningum um allan heim, mannúð sem nær langt út fyrir stjórnarskrárskyldur ríkisins. Vera má að sú jafnvægislist sé mikilvægasta verkefni stjórnmálanna í bili (auk húsnæðismálanna).

Ég tel endurnýjaða stefnu Samfylkingunnar (og Sjálfstæðisflokksin) í útlendingamálum ábyrga tilraun til að hindra uppkomu hægri þjóðernisflokks. Þannig taki Samfylkingin ábyrgð á þjóðfélagsástandinu og vinni fyrir sitt leyti gegn skautun og þjóðernishyggju.

Þá tel ég að Kristrún Frostadóttir byrji feril sinn vel sem formaður. Mál var til þess komið að íslenskir sósíaldemókratar og vinstri menn fengju ábyrgan foringja og að þeir leiði þjóðfélagið með ábyrgri pólitík. Nú býðst þeim það tækifæri og væri meiri mannsbragur að því að sameinast um nýja stefnu – en að fara í skotgrafirnar. Þeir hafa verið þar nógu lengi.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×