Íslenski boltinn

„Ó­skiljan­legt að þetta mark hafi fengið að standa“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA-menn mótmæla marki FH í leiknum í Kaplakrik í gær en á meðan fagna FH-ingar.
KA-menn mótmæla marki FH í leiknum í Kaplakrik í gær en á meðan fagna FH-ingar. Vísir/Pawel

FH komst yfir á móti KA í 1-1 jafntefli liðanna í Kaplakrika í Bestu deild karla í fótbolta í gær en KA-menn voru mjög ósáttir með að markið hafi fengið að standa. Stúkan ræddi þetta umdeilda mark FH-inga í gær.

„Þegar við skoðum þetta opnunarmark í þessum leik, sem FH skorar, þá held ég að flestir verði að vera sammála um það að KA-menn séu óheppnir að þetta mark standi. Sigurður Bjartur [Hallsson] er svo sannarlega fyrir innan,“ sagði Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar og vitnaði svo í viðtal við fyrirliði KA-liðsins eftir leikinn.

„Ívar [Örn Árnason] kom inn á það í viðtalinu að Birkir Sigurðsson aðstoðardómari hafi staðfest það að hann hafi klárlega verið fyrir innan. Arnar [Þór Stefánsson] dómari tók ákvörðun um það að hann hafi ekki haft áhrif á Steinþór [Már Auðunsson] í markinu,“ sagði Guðmundur.

Aðstoðardómarinn henti dómaranum undir rútuna

„Hann sagði að hann hafi fleygt Arnari Þór undir rútuna. Við sáum ekkert ósvipað dæmi upp á Skaga þegar þeir dæmdu það mark af eftir á,“ sagði Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Stúkunnar.

„Þarna var mjög augljóslega Sigurður Bjartur að hafa áhrif á Stubb [Steinþór]. Það er óskiljanlegt að þetta mark hafi fengið að standa,“ sagði Albert.

„Þeir tala sig saman um þessa ákvörðun því hann flaggar aldrei,“ sagði Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar.

Þorði hann ekki?

„Við þurfum að fá VAR strax eða einhvers konar útfærslu,“ sagði Baldur.

Stúkan sýndi síðan markið sem var dæmt af Valsmönnum upp á Akranesi.

„Ætli að það hafi haft áhrif á Arnar Þór að þetta mark var dæmt af eftir á og svo kom í ljós að það var rangur dómur. Mögulega hefur hann ekki þorað að taka sömu áhættu,“ sagði Albert.

Hér fyrir neðan má sjá umræðuna um þessi tvö mörk.

Klippa: Stúkan: Mark FH átti ekki að fá að standa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×