Innlent

Nota skuli sólar­vörn þegar UV-stuðullinn fer upp í þrjá

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Geislavarnir ríkisins minna á mikilvægi sólarvarnar nú þegar styrkur sólar mælist mikill. 
Geislavarnir ríkisins minna á mikilvægi sólarvarnar nú þegar styrkur sólar mælist mikill.  Vísir/Vilhelm

Styrkur útfjólublárrar geislunar frá sólu nær um þessar mundir hámarki hér á landi. Geislavarnir ríkisins minna á hinn svokallaða UV-stuðul sem segir til um styrk geislunarinnar, og mælast til að fólk gæti varúðar þegar nú þegar styrkurinn mælist mikill.

Algengt er að á sólardögum fylgist brúnkuþyrstir Íslendingar með UV-stuðlinum í veðurforritinu sínu til þess að geta ályktað um hversu mikinn árangur sólbað dagsins getur borið. Sem fyrr vara Geislavarnir ríkisins við hækkandi UV-stuðli nú þegar sumarið nær hápunkti. 

Mælst er til þess að fólk beri á sig sólarvörn ætli það að sleikja sólina þegar stuðullinn nær þremur. Á Íslandi getur stuðullinn orðið í mesta lagi sex. En víða um heim mælist hann mun hærri. Meðan sólin er á lofti í dag er UV stuðullinn á Tenerife til dæmis níu. 

Í frétt frá Geislavörnum ríkisins er vísað í nýlega rannsókn sem gefur til kynna að húðkrabbamein séu algengustu krabbameinin hjá fólki með ljósa húð. Flest þessara húðkrabbameina séu af völdum útfjólublárrar geislunar og því sé að miklu leyti hægt koma í veg fyrir þau. Til dæmis með því að hylja húðina, sitja í skugga, nota sólkrem og takmarka þann tíma sem fólk er óvarið í sól.

Þá þurfi sérstaklega að huga að börnunum, þau séu viðkvæmari fyrir geislum sólar en fullorðnir.

Á vefslóðinni uv.gr.is er hægt að sjá hver UV-stuðullinn er á Íslandi hverju sinni. Þá er hægt að fylgjast með UV-stuðlinum í forritinu SunSmart. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×