Erlent

Réttar­höld hafin yfir Alec Baldwin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Baldwin leið augljóslega illa í réttarsalnum í gær.
Baldwin leið augljóslega illa í réttarsalnum í gær. AP/Santa Fe New Mexican/Luis Sánchez Saturno

Réttarhöld yfir leikaranum Alec Baldwin hófust í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum í gær en hann er sakaður um manndráp af gáleysi. Hann á yfir höfði sér 18 mánaða fangelsi ef hann verður fundinn sekur.

Eins og kunnugt er lést kvikmyndatökustjórinn Halyna Hutchins þegar skot hljóp af byssu Baldwin á tökustað myndarinnar Rust árið 2021. Við rannsókn kom í ljós að Hannah Gutierrez-Reed, sem sinnti eftirliti með vopnunum, hafði ruglast á gerviskotfærum og raunverulegum skotfærum.

Gutierrez-Reed var dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir sinn þátt í dauðsfallinu.

Hilaria Baldwin, eiginkona Alec, og bróðir hans Stephen Baldwin voru viðstödd réttarhöldin í gær.AP/Ross D. Franklin

Baldwin hefur lýst sig saklausan og heldur því fram að hann hafi ekki tekið í gikkinn, heldur hafi skotið hlaupið af. Verjendur leikarans sögðu í gær að hann hefði einfaldlega verið að sinna vinnu sinni og treyst því að aðrir á tökustað gerðu slíkt hið sama.

Saksóknarar í málinu höfðu hins vegar aðra sögu að segja; Baldwin hefði virt reglur um meðhöndlun vopna að vettugi, á tökustað þar sem skorið var við nögl og margir voru óreyndir.

Alex Spiro, verjandi Baldwin, benti á að raunveruleg skotfæri hefðu aldrei átt að vera á tökustað en saksóknarar sögðu staðhæfingu Baldwin um að hann hefði ekki tekið í gikkinn ekki standast skoðun. 

Rannsókn Alríkislögreglunnar hefði leitt í ljós að byssan virkaði fullkomlega.

Réttarhöldin munu standa yfir til 19. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×