Fótbolti

„Appel­sínu­gula hjartað mitt brotnaði“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Wiegman sat fyrir svörum í morgun.
Wiegman sat fyrir svörum í morgun. Getty

Karina Wiegman, hollenskur þjálfari enska kvennalandsliðsins í fótbolta, var á báðum áttum eftir sigur Englands á Hollandi í undanúrslitum Evrópumóts karla í fótbolta í gær.

Wiegman sat fyrir svörum á blaðamannafundi í morgun en lið hennar, England, á fyrir höndum leik við Írland í undankeppni EM 2025 annað kvöld.

Hún hafði látið hafa eftir sér í aðdraganda leiks gærkvöldsins að hún myndi gleðjast sama hvernig færi milli Englands og heimaþjóðarinnar Hollands. Það var aðeins annað hljóð í Wiegman á fundinum í dag.

„Viltu pólitíska svarið?“ spurði Wiegman létt þegar hún var spurð út í tilfinningar sínar þegar Ollie Watkins skoraði sigurmark Englands á 90. mínútu í gær.

„Ef ég er alveg hreinskilin, þá óska ég Gareth (Southgate) og liðinu alls hins besta. Ég þekki svo margt fólk í kringum liðið, sem eru auðvitað samstarfsfólk mitt,“

„En þetta var dálítið sárt. Appelsínugula hjartað mitt brotnaði,“ sagði Wiegman á fundi í dag og vísaði þar í appelsínugulan einkennislit hollenska liðsins.

Karlalandslið Englands mætir Spáni í úrslitum Evrópumótsins í Berlín á sunnudagskvöldið. Kvennalandsliðið mætir Írlandi í fimmta leik undankeppninnar fyrir EM á næsta ári annað kvöld.

Leikurinn er afar mikilvægur fyrir England en liðið er með sjö stig í þriðja sæti riðilsins, jafnt Svíþjóð að stigum, sem er sæti ofar og tveimur á eftir Frökkum sem leiða með níu stig. Aðeins tvö þessara þriggja liða fara á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×