Sport

Williams-systur skutu föstum skotum að karlrembunni Butker

Valur Páll Eiríksson skrifar
Systurnar báru sig vel á rauða dreglinum í gær. Serena til vinstri og Venus hægra megin.
Systurnar báru sig vel á rauða dreglinum í gær. Serena til vinstri og Venus hægra megin. Kevin Mazur/Getty Images

Systurnar Serena og Venus Williams sendu NFL-leikmanninum Harrison Butker væna pillu á ESPY-verðlaunahátíðinni vestanhafs í gærkvöld. Butker lét umdeild ummæli falla um hlutverk kvenna fyrir skemmstu.

ESPY verðlaunahátíðin er haldin árlega vestanhafs hvar bandarískt íþróttafólk er heiðrað. Leikstjórnandinn Patrick Mahomes var valinn íþróttamaður ársins í karlaflokki og körfuboltakonan A'ja Wilson kvennamegin.

Serena Williams var kynnir á hátíðinni og jafnframt fyrsta svarta konan til að sinna því hlutverki. Hún var ásamt systur sinni Venus Williams og leikkonunni Quintu Brunson á sviðinu þegar Harrison Butker, liðsfélagi Patrick Mahomes hjá Kansas City Chiefs, barst í tal í tengslum við íþróttir kvenna.

„Svo njótið kvennaíþrótta líkt og þið mynduð njóta allra aðra íþrótta, vegna þess að þær eru íþróttir“ sagði Venus Williams.

„Nema þú Harrison Butker. Við viljum þig ekki,“ sagði Serena. „Ekki á neinn hátt, nokkurn tímann,“ botnaði Brunson.

Þær uppskáru mikinn hlátur en Butker hefur verið milli tannana á fólki í sumar vegna umdeildrar ræðu sem hann hélt við útskriftarathöfn í háskóla í Kansas-fylki í maí. Butker fór þar mikinn. Hann lét gamminn geysa um fóstureyðingar, Covid-faraldurinn og gerði lítið úr baráttu hinsegin fólks.

Þá sagði Butker flestar konur dreyma um að vera húsmæður og þóttu skoðanirnar sem hann viðraði um hlutverk kynjanna vera heldur forneskjulegar.

Aðspurður um ræðuna í kjölfarið stendur Butker heilshugar við orðræðu sína og fékk því að heyra það á verðlaunahátíð gærkvöldsins.

Atvikið má sjá í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×