Fótbolti

Heimsmeistararnir töpuðu ó­vænt gegn Tékk­landi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Aitana Bonmatí skoraði mark Spánar í afar óvæntu tapi.
Aitana Bonmatí skoraði mark Spánar í afar óvæntu tapi. EPA-EFE/MASSIMO PICA

Ríkjandi heimsmeistarar í kvennafótbolta, Spánn, töpuðu mjög svo óvænt gegn Tékklandi í dag. Þetta var fyrsta tap Spánverjanna og fyrsta sigur Tékkanna í undankeppni Evrópumótsins.

Það leit allt út fyrir hefðbundinn spænskan sigur á upphafsmínútunum. Aitana Bonmatí kom þeim yfir á 15. mínútu og spænska liðið var með alla yfirburði í fyrri hálfleik en rétt áður en hann var flautaður af jafnaði Kateřina Svitková leikinn fyrir Tékkland. 

Út í seinni hálfleik var haldið og þar gaf Spánn klaufalega vítaspyrnu frá sér á 51. mínútu, sem Eva Bartoňová skoraði úr.

Spænski miðvörðurinn Irene Paredes lét svo reka sig af velli á 70. mínútu og öll von um spænska endurkomu hvarf.

Leikurinn fjaraði út án spennu á lokamínútunum og Tékkland fagnaði sínum fyrsta sigri í undankeppninni.

Þær spænsku þurfa þó ekki að örvænta því þær eru búnar að vinna riðilinn og eru öruggar áfram á Evrópumótið sem fer fram í Sviss á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×