Körfubolti

Brunson hjálpar Knicks með því að skilja fimm­tán milljarða eftir á borðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jalen Brunson átti mjög gott tímabil með New York Knicks 2023-24 en ætlar sér enn stærri hluti á komandi leiktíð.
Jalen Brunson átti mjög gott tímabil með New York Knicks 2023-24 en ætlar sér enn stærri hluti á komandi leiktíð. Getty/Elsa

NBA körfuboltamaðurinn Jalen Brunson lét verkin tala í gær þegar kom að því að hjálpa New York Knicks að vera betra. Brunson var tilbúinn að fá mun lægri laun fyrir vinnu sína en hann var búinn að vinna sér inn.

Brunson framlengdi samning sinn við Knicks og skrifaði undir fjögurra ára samning sem gefur honum 156,5 milljónir í laun eða 21,5 milljarða íslenska króna. Nýi samningurinn tekur gildi á 2025-26 tímabilinu.

Það þarf nú enginn að kvarta yfir slíkum launatékka en eftir frábæra frammistöðu sína með Knicks þá átti Brunson rétt á því á næsta ári að fá 269 milljónir fyrir fimm ára samning.

Hann skildi því 113 milljónir dollara eftir á borðinu eða fimmtán milljarða króna.

Með því að gera slíkan samning myndi Brunson þrengja mjög að möguleikum Knicks að semja við aðra leikmenn til að styrkja leikmannahópinn.

Brunson ræður sjálfur hvað hann gerir á fjórða og síðasta ári samningsins. Umboðsmaður hans segir að gangi allt upp þá gæti hann nælt sér þá í risasamning.

Semji Brunson árið 2028 gæti hann fengið 323 milljónir fyrir fjögurra ára samning (44,4 milljarðar) en árið 2029 gæti hann fengið 418 milljónir dala fyrir fimm ára samning (57,4 milljarðar).

Það er þó langur tími þangað til og margt getur gerst. Nýja framlengingin hjálpar New York Knicks mikið í baráttunni um að komast aftur alla leið.

Brunson var með 28,7 stig og 6,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili. Hann var valinn í annað úrvalslið deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×