Handbolti

Svíarnir of sterkir fyrir ís­lensku strákana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reynir Þór Stefánsson var markahæstur í íslenska liðinu í dag.
Reynir Þór Stefánsson var markahæstur í íslenska liðinu í dag. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska tuttugu ára landslið karla í handbolta tapaði með tíu marka mun á móti Svíum, 33-23, á EM í Slóveníu í dag.

Svíarnir keyrðu yfir íslenska liðið í seinni hálfleiknum eftir að hafa verið 15-12 yfir í hálfleik.

Íslenska liðið skoraði tvö fyrstu mörkin í leiknum og var 5-3 yfir. Sænska liðið skoraði þrjú mörk í röð í lokin á fyrri hálfleiknum og síðan sex af sjö fyrstu mörkum seinni hálfleiksins.

Munurinn var fljótlega kominn upp í átta mörk og að lokum munaði tíu mörkum á liðunum.

Framarinn Reynir Þór Stefánsson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk og Eyjamaðurinn Elmar Erlingsson skoraði fjögur mörk.

Haukamaðurinn Össur Haraldsson, sem skoraði tólf mörk í leiknum á undan, var aðeins með tvö mörk í dag.

Íslenska liðið hafði unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu á móti Póllandi og Úkraínu með samtals 32 marka mun. Svíarnir voru hins vegar of sterkir fyrir íslensku strákana í úrslitaleik riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×