Fótbolti

Pat­rik mun verja mark Freys og fé­laga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Patrik í leik með íslenska landsliðinu árið 2022.
Patrik í leik með íslenska landsliðinu árið 2022.

Norska liðið Viking greinir frá því á heimasíðu sinni að liðið hafi náð samkomulagi við belgíska félagið Kortrijk um kaupverð á markverðinum Patrik Sigurði Gunnarssyni.

Félagaskiptin hafa legið í loftinu í nokkra daga en Freyr Alexandersson er knattspyrnustjóri Kortrijk sem  bjargaði sér eftirminnilega frá falli í belgísku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Patrik hefur leikið með Viking síðan árið 2021 þegar hann var lánaður til liðsins frá enska liðinu Brentford en norska liðið gekk frá kaupum á Patrik ári síðar.

Á heimasíðu Viking kemur fram að Patrik muni nú ferðast til Belgíu til að ganga frá samningi við Kortrijk og gangast undir læknisskoðun. Það séu síðustu formlegheitin áður en gengið verði frá félagaskiptum.

Patrik hefur leikið 90 leiki með Viking síðan árið 2021. Þá á hann að baki 30 leiki fyrir landslið Íslands, þar af fjóra fyrir A-landsliðið. Patrik er uppalinn hjá Breiðablik en gekk til liðs við Brentford árið 2018 þegar hann var átján ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×