Fótbolti

Luis Suárez hetjan í mögu­lega síðasta lands­leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez var tolleraður af liðsfélögum sínum í leikslok.
Luis Suarez var tolleraður af liðsfélögum sínum í leikslok. Getty/Grant Halverson

Luis Suárez tryggði Úrúgvæ vítakeppni og skoraði síðan úr sínu víti í henni þegar Úrúgvæ vann bronsið í Suðurameríkukeppni landsliða í nótt.

Úrúgvæ og Kanada gerðu 2-2 jafntefli í leiknum um þriðja sætið en Úrúgvæ vann vítakeppnina 4-3.

Kanadamenn voru 2-1 yfir í uppbótatíma leiksins þegar Suárez jafnaði með sínu 69. landsliðsmarki. Hann er orðinn 37 ára og þetta gæti mögulega verið hans síðasti landsleikur. Með markinu varð hann sá elsti til að skora í keppninni.

Rodrigo Bentancur kom Úrúgvæ í 1-0 á 8. mínútu en Ismaël Koné jafnaði fjórtán mínútum síðar. Jonathan David fylgdi eftir skoti Koné og kom Kanada yfir á 80. mínútu og það leit út fyrir að ætla að verða sigurmarkið. Suárez bjargaði hins vegar málunum á annarri mínútu í uppbótatíma og því réðust úrslitin í vítakeppni.

Úrúgvæmenn skoruðu úr öllum fjórum vítaspyrnum sínum en Sergio Rochet varði víti frá Ismaël Koné og Alphonso Davies tryggði Úrúgvæ síðan bronsið með því að skjóta í slá úr fjórðu spyrnu Kanada.

Federico Valverde, Rodrigo Bentancur, Giorgian de Arrascaeta og Luis Suárez skoruðu úr vítunum en Kanadamennirnir Jonathan David, Moïse Bombito og Mathieu Choinière nýttu sínar spyrnur.

Þetta er í tíunda skiptið sem Úrúgvæ vinnur bronsið í Copa America og í 31. skiptið sem Úrúgvæjar vinna til verðlauna í keppninni. Úrúgvæ hafði samt ekki komust á verðlaunapall í þrettán ár eða síðan þeir unnu keppnina 2011.

Úrúgvæ hefur alls unnið Suðurameríkukeppnina fimmtán sinnum eða jafnoft og Argentína. Argentína mætir Kólumbíu í úrslitaleiknum seint í kvöld og bætir því metið með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×