Fótbolti

„Sorg­legt að koma á leik bara til að púa á einn leik­mann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marc Cucurella hefur spilað vel fyrir spænska landsliðið á þessu Evrópumóti en fram undan er úrslitaleikurinn í Berlín í kvöld.
Marc Cucurella hefur spilað vel fyrir spænska landsliðið á þessu Evrópumóti en fram undan er úrslitaleikurinn í Berlín í kvöld. EPA-EFE/ANNA SZILAGYI

Það fór ekkert fram hjá neinum sem horfði á undanúrslitaleik Spánar og Frakklands að einn leikmaður á vellinum mátti þola hreint og tært einelti nær allan leikinn.

Hér erum við að tala um spænska varnarmanninn Marc Cucurella. Fullt af áhorfendum púuðu á hann í hvert skipti sem hann fékk boltann í þessum leik.

Ástæðan var sú að það var hann sem fékk boltann í hendina í lokin á leiknum á móti gestgjöfum Þýskalands í átta liða úrslitunum. Þjóðverjar vildu fá víti en ekkert var dæmt. Spánverjar sluppu með skrekkinn og komust í undanúrslitaleikinn.

Fullt af Þjóðverjum voru aftur á móti búnir að kaupa sér miða á undanúrslitaleikinn og mættu bara með það markmið að púa á Cucurella.

„Í raun og veru þá var mér sama um baulið en á sama tíma þá er það sorglegt að koma á leik bara til að púa á einn leikmann,“ sagði Marc Cucurella við The Athletic. NRK segir frá.

„Sumt fólk sóaði miðunum sínum sem hefðu getað farið til annarra sem langaði virkilega að sjá leikinn,“ sagði Cucurella.

Cucurella hefur reyndar reynslu að svona lögðuðu. Þegar hann skipti úr Brighton til Chelsea fyrir tveimur árum þá bauluðu stuðningsmenn Brighton á hann um leið og hann fékk boltann.

„Þá var líka púað mjög hátt í hvert skipti sem ég fékk boltann. Ég get ekki sagt að það sé óbærileg tilfinning en þetta er óþægilegt,“ sagði Cucurella.

Spánverjar hafa unnið alla sex leiki sína á Evrópumótinu og mæta Englandi í úrslitaleiknum í Berlín í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×