Fótbolti

Enginn enskur karl kæmist í vörnina í úr­vals­liði hetjunnar frá 2022

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chloe Kelly fagnar sigurmarkinu sínu í úrslitaleik EM 2022 en það er í eina skiptið sem A-landslið Englands hefur orðið Evrópumeistari.
Chloe Kelly fagnar sigurmarkinu sínu í úrslitaleik EM 2022 en það er í eina skiptið sem A-landslið Englands hefur orðið Evrópumeistari. Getty/Julian Finney

Chloe Kelly, hetja enska landsliðsins í úrslitaleik EM kvenna 2022, var fengin til að velja úrvalslið úr bæði karla- og kvennalandsliði Englendinga.

Enska kvennalandsliðið vann Evrópumótið fyrir tveimur árum og enska karlalandsliðið getur endurtekið leikinn á móti Spánverjum í Berlín í kvöld.

Kelly kom inn á sem varamaður í úrslitaleiknum á Wembley sumarið 2022 og skoraði sigurmarkið í leiknum. Það þótti við hæfi að fá hetjuna til að velja sameiginlegt úrvalslið.

Kelly valdi þó aðeins þrjá karla í úrvalsliðið á móti átta konum.

Það vakti líka athygli að enginn karlamaður komst í vörnina því markvörðurinn og allir fjórar varnarmennirnir í úrvalsliði Kelly leika með kvennalandsliðinu.

Einu karlarnir sem komust í liðið hennar eru Bukayo Saka, Phil Foden og Jude Bellingham.

Í markinu er Mary Earps og varnarmennirnir eru Lucy Bronze, Millie Bright, Leah Williamson og Alex Greenwood.

Keira Walsh er á miðjunni með Foden og Bellingham og í framlínuni er Alessia Russo ásamt Kelly sjálfri og Saka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×