Erlent

Á­varpaði þjóðina og hvatti menn til að „kæla“ orð­ræðuna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden ávarpaði þjóðina frá Hvíta húsinu í gær.
Biden ávarpaði þjóðina frá Hvíta húsinu í gær. AP/New York Times/Erin Schaff

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði bandarísku þjóðina frá Hvíta húsinu í gærkvöldi og hvatti til samstöðu gagnvart sundrung og reiði. Hann sagði of mikinn hita og reiði einkenna pólitíska orðræðu í landinu og hvatti menn til að „kæla hana niður“.

Tilefni ávarps forsetans var banatilræðið gegn Donald Trump í Pennsylvaníu á laugardag.

Sjálfur sagði Trump í samtali við Washington Examiner í gær að hann væri núna fyrst að átta sig á því hvað hefði gerst. Þá hét hann því að nota ræðu sína á landsþingi Repúblikana, sem hefst í dag, til að sameina þjóðina og jafnvel alla heimsbyggðina.

„Ræðan verður mjög ólík því sem hún hefði verið fyrir tveimur dögum,“ sagði hann.

Biden hefur fyrirskipað rannsókn á  því hvernig árásarmaðurinn komst upp á þak nærri sviðinu þar sem Trump var að halda kosningaræðu þegar hann var skotinn. Alríkislögreglan hefur varað við því að hótunum um ofbeldi í tengslum við kosningarnar hafi fjölgað í kjölfar árásarinnar.

„Við getum ekki og megum ekki ganga þennan veg í Bandaríkjunum,“ sagði Biden og vísaði til fleiri dæma um ofbeldi í tengslum við pólitík, svo sem árásina á þinghúsið og árásina á eiginmann Nancy Pelosi.

Þá sagði hann Corey Comperator hetju en hann lést á kosningafundinum á laugardag þegar hann freistaði þess að skýla konu sinni og dóttur frá skotum.

Samsæriskenningar varðandi tilræðið gegn Trump fara nú eins og eldur í sinu í netheimum og þá hafa Repúblikanar sakað Biden um að eiga þátt að máli með því að stilla Trump upp sem ógn við lýðræðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×