Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin og rauða spjaldið úr leik Vestra og KA

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hallgrímur Mar skoraði bæði mörk KA, það fyrra úr vítaspyrnu og það seinna með vinstri fótar slútti.
Hallgrímur Mar skoraði bæði mörk KA, það fyrra úr vítaspyrnu og það seinna með vinstri fótar slútti. Vísir / Anton Brink

KA vann 2-0 gegn tíu mönnum Vestra í Bestu deild karla í gær. Mörkin tvö og rauða spjaldið má sjá hér fyrir neðan. 

Rétt fyrir hálfleik gaf Bjarni Aðalsteinsson gullfallega sendingu á Viðar Örn Kjartansson sem var klipptur niður í teignum af markmanni Vestra og vítaspyrna dæmd.

Viðar fékk þó ekki tækifæri sjálfur til að skora sitt fyrsta mark í sumar, Hallgrímur Mar Steingrímsson steig á punktinn og skoraði þrátt fyrir að markmaðurinn hafi farið í rétta átt.

Viðar Örn vildi aftur fá vítaspyrnu skömmu síður þegar hann var togaður niður í teignum, en ekkert dæmt og KA fór inn í hálfleikinn með 1-0 forystu.

Það gerðist svo á 75. mínútu að varnarmenn Vestra voru skrefi á eftir sóknarmönnum KA. Hallgrímur Mar fékk boltann frá Harvey Willard, potaði honum inn fyrir á sjálfan sig og kláraði færið vel með vinstri fæti.

Undir lokin varð Vestri manni færri þegar Fatai Gbadamosi kútveltist og sparkaði í Kára Gautason.

KA fagnaði því tveggja marka sigri sem kemur þeim upp í áttuna sæti deildarinnar en Vestri er í 11. og næstneðsta sæti eftir 14 umferðir.

Mörkin og rauða spjaldið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×