Sport

Djokovic segist ekki spila á sama getustigi og ungu mennirnir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Carlos Alcaraz og Novak Djokovic með gull- og silfurverðlaun á Wimbledon í gær. 
Carlos Alcaraz og Novak Djokovic með gull- og silfurverðlaun á Wimbledon í gær.  Julian Finney/Getty Images

Novak Djokovic tapaði úrslitaleik Wimbledon annað árið í röð gegn Carlos Alcaraz í gær og virðist sjá sólina vera að setjast á sínum sigursælum ferli.

Djokovic er sigursælasti tenniskappi sögunnar en er orðinn 37 ára gamall og hefur horft á eftir risamótstitlum þessa árs fara í hendur unga mannanna Jannik Sinner og Carlos Alcaraz.

Sinner er 21 árs og vann opna ástralska í janúar, Alcaraz er 22 ára og vann opna franska í vor og Wimbledon í gær.

„Þeir hafa verið bestir á þessu ári. Mér finnst ég ekki á sama getustigi. Ef ég á að eiga séns á að vinna þá á risamóti eða Ólympíuleikunum þarf ég að spila mun betur og líða mun betur,“ sagði Djokovic í viðtali við BBC.

Djokovic hefur ekki enn unnið mót á þessu ári, sem gerir þetta að versta tímabili hans síðan 2006. Hann steinlá fyrir Alcaraz í úrslitaleiknum í gær og tapaði 3-0. Í fyrra var úrslitaleikurinn milli þeirra mun meira spennandi og fór alla leið í oddaset sem Djokovic tapaði og brjálaðist í kjölfarið. 

Það voru ekki sömu tilfinningar í spilum í gær og hann virtist taka tapinu af mun meiri ró.

Wimbledon innslag úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×