Innlent

Mál á hendur skip­verjum Polar Nanoq fellt niður

Jón Þór Stefánsson skrifar
Grænlenski togarinn Polar Nanoq.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq. víðir már hermannsson

Meint kynferðisbrotamál á hendur þremur skipverjum grænlenska togarans Polar Nanoq hefur verið lagt niður. Það er ákvörðun ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Það var metið sem svo að það væri ekki grund­völl­ur til að halda rann­sókn máls­ins áfram,“ hefur Mbl.is eftir Árna Bergi Sigurðssyni, saksóknara hjá lögreglunni, en miðillinn greinir frá vendingunum.

Greint var frá því byrjun mánaðar að rannsókn málsins væri lokið og það komið í hendur ákærusviðs lögreglunnar.

Úgerðarstjóri Siggu A/S, sem gerir út Polar Nanoq, hefur áður sagt að rannsókn lögreglu sneri að innbroti um borð í skipinu en ekki kynferðisbroti og gagnrýndi vinnubrögð lögreglu.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði við fréttastofu í byrjun mánaðar að rannsóknin hafi snúið að því hvort kynferðisbrot hafi átt sér stað.

Um er að ræða sama togara og í máli Thomas Møller Olsen, sem var skipverji á togaranum árið 2017. Olsen var dæmdur í nítján ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur og smygl á umfangsmiklu magni af kannabisefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×