Argentína vann 1-0 sigur á Kólumbíu í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar í knattspyrnu á sunnudagskvöldið. Argentínumenn náðu því að verja titil sinn frá árinu 2021 en þeir eru einnig ríkjandi heimsmeistarar eftir sigur á Frökkum í úrslitaleik í Katar árið 2022.
Rígurinn á milli liðanna eftir úrslitaleikinn í Katar virðist enn vera sterkur. Eftir sigurinn á Kólumbíu birti Enzo Fernandez myndband á Instagram þar sem hann og liðsfélagar hans í argentínska landsliðinu sungu söngva um franska landsliðið.
„Þeir spila fyrir Frakkland en foreldrar þeirra eru frá Angóla. Móðir þeirra er frá Kamerún, pabbi þeirra frá Nígeríu. En vegabréfið þeirra segir Frakkland,“ mátti heyra Argentínumenn syngja og þessir söngvar virðast heldur betur ætla að draga dilk á eftir sér.
Hættir að fylgja liðsfélaganum á Instagram
Philippe Dialli, forseti franska knattspyrnusambandsins, hefur biðlað til forseta argentínska sambandsins og Gianni Infantino forseta FIFA að bregðast við það sem hann segir vera „hneykslanleg ummæli, í andstöðu við íþróttandann og mannréttindi.“
„Forseti franska knattspyrnusambandsins fordæmir harðlega óásættanleg rasísk og niðrandi ummæli sem viðhöfð voru í garð leikmanna franska landsliðsins í lagi sem sungið var af leikmönnum og stuðningsmönnum Argentínu eftir sigur liðsins í Suður-Ameríkukeppninni,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Frakka og ljóst að þeir ætla ekki að beita neinum vettlingatökum í málinu.
🚨 Axel Disasi, Malo Gusto and Wesley Fofana have UNFOLLOWED Enzo Fernandez on Instagram following the racist chant he sang with his Argentinean teammates about the French national team. 🇫🇷 pic.twitter.com/ZexPufd2T7
— Transfer News Live (@DeadlineDayLive) July 16, 2024
Myndbandið birtist eins og áður segir á Instagramsíðu Enzo Fernandez sem leikur með Chelsea á Englandi. Í frétt The Athletic segir að Chelsea sé að skoða málið en það er nú þegar farið að hafa áhrif í leikmannahópi liðsins.
Frakkinn Wesley Fofana birti myndband á X-síðu sinni með fyrirsögninni „Fótbolti 2024: óhindraður rasismi“ og þá hafa Axel Disasi, Malo Gusto og Fofana sjálfur hætt að fylgja liðsfélaga sínum Fernandez á Instagram. Í kvöld bárust síðan fréttir af því að Chelsea hefði hafið sína eigin rannsókn á málinu.
Le football en 2024 : racisme décomplexé 🤦🏽♂️🤦🏽♂️🤦🏽♂️ pic.twitter.com/MGkH5wPmNU
— Wesley Fofana (@Wesley_Fofana3) July 16, 2024
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessir söngvar í garð Frakka heyrast. Á heimsmeistaramótinu í Katar 2022 sögðu samtökin SOS Racisme að samkvæmt hugmyndafræði öfga-hægrimanna litu sumir á að einhverjir leikmenn franska landsliðsins væru ekki Frakkar. Biðluðu samtökin til FIFA að bregðast við söngvunum sem heyrðust á nú á nýjan leik.