Fótbolti

Rekinn fyrir að biðja Messi um að biðjast af­sökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Milei er forseti Argentínu og hann kom Lionel Messi til varnar.
Javier Milei er forseti Argentínu og hann kom Lionel Messi til varnar. EPA-EFE/JUAN IGNACIO RONCORONI

Rasistasöngur argentínska landsliðsmannsins Enzo Fernandes og liðsfélaga hans eftir sigur Argentínu í Suðurameríkukeppninni var fordæmdur víða um heim en aðstoðaráðherra íþróttamála í Argentínu kemur einna verst út úr málinu.

Hluti argentínska landsliðsins söng rasistasöngva um franska landsliðsmenn eftir að Argentínumenn unnu sitt þriðja stórmót í röð. Myndband af öllu saman var tekið upp af Chelsea manninum Enzo Fernandes og sett á Instagram.

Fullt af liðsfélögum Fernandes hjá Chelsea tóku mjög illa í þetta og leikmaðurinn hefur beðist afsökunar. Það var samt ekki nóg að mati Julio Garro, aðstoðarmanns Íþróttamálaráðherra Argentínu.

Garro vildi fá afsökunarbeiðni frá sjálfum Lionel Messi, sem er fyrirliði argentínska landsliðsins.

„Fyrirliði landsliðsins verður líka að biðjast afsökunar í þessu máli. Það sama á við um forseta argentínska sambandsins. Ég tel að það sé við hæfi því annars komum við illa út,“ sagði Garro.

Stjórnvöld í Argentínu voru allt annað en sátt með þessa beiðni og Javier Milei, forseti Argentínu, tjáði sig um hana á samfélagsmiðlinum X.

„Forsetaskrifstofan vill koma því á framfæri að stjórnvöld taka ekki ákvörðun fyrir hönd knattspyrnusambands Argentínu eða ákveða hvað heimsmeistari á að hugsa, segja eða gera. Hvorki hann né nokkur borgari þessa lands. Vegna þessa þá er Julio Garro ekki lengur aðstoðarráðherra íþróttamála,“ skrifaði Javier Milei á X.

Garro tók við stöðunni í mars á þessu ári og var því rekinn eftir aðeins fjóra mánuði í starfi. Hann hefur beðist afsökunar á yfirlýsingu sinni en sagði jafnframt að hann komi alltaf þeim til varnar sem verði fyrir einhvers konar mismunun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×