Samstarf

17 manns látist í slysum sem rekja má til svefns eða þreytu

Umferðarátak 2024
Mikil þreyta getur valdið því að athygli skerðist, það hægir á viðbrögðum okkar og við eigum erfiðara með að meta fjarlægðir, eigin hraða og hættur.
Mikil þreyta getur valdið því að athygli skerðist, það hægir á viðbrögðum okkar og við eigum erfiðara með að meta fjarlægðir, eigin hraða og hættur. Vilhelm

Þreyta getur skapað lífshættulegt ástand undir stýri. Vísir, Bylgjan og Stöð 2 standa nú fyrir umferðarátaki í samstarfi við Samgöngustofu.

„Frá 2002 til og með ársins 2023 höfum við séð 293 banaslys í umferðinni. Af þeim voru 15 skráð vegna svefns eða örþreytu, eða um 5,1% banaslysa. Í þessum banaslysum létust 325 manns og þar af 17 manns í þeim 15 slysum sem rekja má til svefns eða mikillar þreytu. Það eru um 5,2% þeirra sem látist hafa í umferðinni,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar Samgöngustofu.

Gunnar segir að líklegt sé að í einhverjum banaslysum hafi svefn og þreyta verið orsök án þess að það hafi komið upp við rannsókn málsins. Þá er þreyta eða svefn skráður orsakavaldur í 3 – 4% alvarlegra slysa.

„Vanskráningin þar getur þó verið meiri en í banaslysum þar sem þau eru ekki rannsökuð jafnýtarlega en einnig má túlka það þannig að svefn og þreyta sé hættulegra ástand en aðrar orsakir alvarlegra umferðarslysa, þ.e að líklegra sé að slík tilfelli endi sem banaslys,“ segir Gunnar.

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar Samgöngustofu.

Skert athygli og hægari viðbrögð

Ekki er því skynsamlegt að fólk setjist þreytt undir stýri. Mikil þreyta getur valdið því að athygli skerðist, það hægir á viðbrögðum okkar og við eigum erfiðara með að meta fjarlægðir, eigin hraða og hættur. „Það verður ákveðin skerðing á vitrænni úrvinnslu,“ segir Gunnar. Mikilvægt sé að hætta akstri strax ef merki ofþreytu gera vart við sig.

„Merki þess að við séum of þreytt til að keyra er að okkur dettur í hug að hvíla augun örlítið, loka þeim bara í eina sekúndu og opna þau svo aftur. Í því ástandi er gríðarlega mikilvægt að við stoppum bílinn á öruggum stað til dæmis úti í kanti og hættum akstri hið snarasta.

Ef við finnum fyrir því að við erum jafnvel farin að dotta er besta ráðið að stöðva bílinn á öruggum stað og leggja sig, þó ekki væri nema í 15 mínútur. Ekki er þó mælt með því að stilla vekjaraklukku heldur einfaldlega leggja sig þar til við vöknum aftur. Þannig verðum við endurnærð og í betra standi til að halda akstrinum áfram."

Nokkur athriði til að hafa í huga áður en lagt er af stað

Ef syfja sækir á okkur við aksturinn ætti að stöðva bílinn á öruggum stað og sofna. Halda svo ferðinni áfram þegar við vöknum aftur.Vilhelm Gunnarsson

Það er margt hægt að gera til að fyrirbyggja þreytuástand undir stýri.

  • Best er að vera vel úthvíld áður en haldið er af stað.
  • Gott er að stoppa reglulega og teygja úr sér og hvíla sig tímabundið á akstrinum.
  • Mikilvægt er að nærast vel, bæði af mat og drykk - koffín getur jafnvel hjálpað til.
  • Ef fleiri eru í bílnum er gott ráð að skiptast á að keyra.
  • Þá er mikilvægt ef fleiri eru í bílnum að farþegar sofni ekki allir, það er fátt eins svæfandi eins og að vera umkringdur sofandi fólki.
  • Höfum loftið í bílnum frekar of kalt en of heitt. Of mikill hiti getur verið slævandi og aukið þannig líkurnar á að ökumaður sofni.

Bylgjan, Vísir, Stöð 2 og Samgöngustofa standa nú fyrir átaki um að sýna ábyrgð í umferðinni. Góður hópur samstarfsaðila leggur átakinu lið; F.Í.B, Hopp, Hreyfill, Höldur Bílaleiga Akureyrar, Sniglar - Bifhjólasamtök lýðveldisins og Steypustöðin. Tökum höndum saman og sýnum ábyrgð í umferðinni alla daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×