Fótbolti

Stjarnan á­fram eftir dramatískan endi í Norður-Ír­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stjarnan er komin áfram.
Stjarnan er komin áfram. Vísir/Diego

Stjarnan er komin áfram í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta eftir 3-2 tap gegn Linfield í Norður-Írlandi í kvöld. 

Stjarnan var í góðri stöðu fyrir leik kvöldsins eftir 2-0 sigur í Garðabænum. Heimamenn vissu að þeir þyrftu að byrja af krafti til að gera einvígið spennandi og það tókst þegar Joel Cooper kom Linfield 1-0 yfir á 7. mínútu leiksins.

Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks og einvígið því enn galopið þegar liðin sneru til baka eftir hálfleiksræður þjálfaranna. Svo virðist sem Jökull I. Elísabetarson hafi sagt réttu hlutina við sína menn en Emil Atlason hélt áfram að hrella leikmenn Linfield þegar hann jafnaði metin á 57. mínútu eftir undirbúning Róberts Frosta Þorkelssonar.

Matthew Orr kom Linfield yfir á nýjan leik þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka og heimamenn gerðu sig líklega til að jafna metin í einvíginu. Það tókst þeim nokkrum mínútum síðar þegar Matthew Fitzpatrick kom Linfield í 3-1 og staðan í einvíginu allt í einu orðin 3-3.

Hilmar Árni Halldórsson kom inn af varamannabekk Stjörnunnar þegar tíu mínútur leiks og skoraði hann sigurmark einvígisins þegar tvær mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Haukur Örn Brink með stoðsendinguna en hann hafði einnig komið inn af bekknum.

Chris Shields fékk skömmu síðar beint rautt spjald í liði Linfield og eftir það tókst Stjörnunni að sigla sigrinum (í einvíginu) heim. Lokatölur 3-2 Linfield í vil en Stjarnan vann einvígið 4-3 og er komin áfram í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Þar bíður Paide Linnameeskond frá Eistlandi. Leikirnir í 2. umferð forkeppninnar fara fram 25. júlí og 1. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×