Golf

Lýsandi harð­lega gagn­rýndur fyrir ó­smekk­leg um­mæli um Tiger

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tiger Woods náði sér ekki á strik á fyrsta hring Opna breska meistaramótsins í golfi.
Tiger Woods náði sér ekki á strik á fyrsta hring Opna breska meistaramótsins í golfi. getty/Pedro Salado

Ummæli lýsara á Opna breska meistaramótinu um verkjalyfjafíkn Tigers Woods mæltust afar illa fyrir.

Opna breska hófst á Royal Troon vellinum í Skotlandi í gær. Eins og venjulega fylgdust margir grannt með Tiger sem hefur unnið mótið í þrígang.

Mikið vatn hefur hins vegar runnið til sjávar síðan Tiger vann Opna breska síðast (2006) og kylfingurinn sigursæli náði sér ekki á strik á fyrsta hring mótsins í gær. Tiger lék á átta höggum yfir pari og því er ólíklegt að hann komist í gegnum niðurskurðinn.

Mark Roe lýsti því sem fyrir augu bar á Opna breska fyrir sjónvarpsáhorfendum en ummæli hans um Tiger fóru misjafnlega ofan í fólk. 

„Þú horfir í augun á honum og verður að hugsa að hann hefur tekið mikið af verkjatöflum til að glíma við sársaukann,“ sagði Roe.

Ummælin þóttu heldur ósmekkleg þar sem Tiger hefur glímt við verkjalyfjafíkn og var meðal annars gripinn undir áhrifum við akstur 2017. Í blóði hans fundust verkjalyf, svefntöflur og virkt efni í marijúana. Tiger slapp við dóm gegn því að fara í meðferð.

Sýnt verður beint frá öllum keppnisdögum Opna breska á Stöð 2 Sport 4.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×