Enski boltinn

Var rekinn fyrir rúmu ári en fær enn 36 milljónir á viku frá Chelsea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Graham Potter stýrði Chelsea í rúmt hálft ár.
Graham Potter stýrði Chelsea í rúmt hálft ár. getty/John Walton

Þrátt fyrir að Graham Potter hafi verið rekinn sem knattspyrnustjóri Chelsea í byrjun apríl í fyrra fær hann enn greitt frá félaginu.

Eftir að hafa náð góðum árangri með Brighton var Potter ráðinn stjóri Chelsea í september 2022. Liðið vann hins vegar aðeins tólf af 31 leik undir stjórn Potters og hann var látinn taka pokann sinn 2. apríl í fyrra.

Potter er enn án starfs og fær því enn greitt frá Chelsea. Og það eru engar smá upphæðir.

Englendingurinn fær nefnilega tvö hundruð þúsund pund í vikulaun frá Chelsea. Það jafngildir 36 milljónum íslenskra króna.

Samningur Potters við Chelsea hefði átt að renna út í október og hann fær því greitt frá félaginu þangað til.

Potter er meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við starf landsliðsþjálfara Englands sem er laust eftir að Gareth Southgate sagði af sér á mánudaginn. Ef Potter verður ráðinn landsliðsþjálfari fær Chelsea bætur frá enska knattspyrnusambandinu.

Chelsea hefur næsta tímabil með nýjan mann í brúnni; Enzo Maresca sem var ráðinn stjóri liðsins í byrjun mánaðarins. Mauricio Pochettino stýrði Chelsea á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×