Innlent

Tækni­legir örðug­leikar til skoðunar á Kefla­víkur­flug­velli

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Umfang vandræðanna er enn óljóst.
Umfang vandræðanna er enn óljóst. Vísir/Vilhelm

Tæknilegra örðugleika sem hafa valdið því að flugvélar hafi verið kyrrsettar um allan heim gætir einnig á Keflavíkurflugvelli. Flugferðum hefur verið frestað og aflýst í Sydney, Edinborg, Amsterdam og um öll Bandaríkin. Ekki liggur fyrir hversu víðtækur vandinn er og enn sem komið er hefur engum flugferðum verið aflýst til og frá Keflavík.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir umfang vandræðanna ekki vera honum ljóst en að málið sé í skoðun í Keflavík.

„Við erum bara að fara yfir stöðuna. Við könnumst við vandamálið,“ segir hann.

Forstjóri samskipta hjá Icelandair segir tækniörðugleikar ekki hafa áhrif á flugáætlun Icelandair en málið er enn í skoðun og upplýsingar af skornum skammti. Verið sé að greina hvort vandamálið snerti starfsemi félagsins.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að talið sé að vandræðin eigi rætur sínar að rekja til netöryggisfyrirtækisins Crowdstrike sem framleiðir veiruvarnir. Einhvers konar uppfærsla í hugbúnaðinum þeirra hefur haft þau áhrif að tölvur sem nota búnaðinn verði fyrir kerfisbilun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×