Samkvæmt Deadline er Baltasar einnig að klára samningaviðræður um að leikstýra kvikmyndinni. Viðræðurnar virðast ganga vel miðað við að RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasars, deilir fréttinni um þær í hringrás (e. story) á Instagram. Þá kemur fram að Theron og Baltasar ætli einnig að koma að framleiðslu kvikmyndarinnar.
Um er að ræða kvikmynd sem gerð er eftir handriti Jeremy Robbins. Handritið ku hafa heillað yfirmenn hjá Netflix svo mikið að ákveðið var að kaupa réttindin áður en búið var að negla einn einasta leikara, hvað þá leikstjóra. Í umfjöllun Deadline kemur fram að það sé ansi sjaldgæft.
Einnig segir að Theron og Baltasar hafi verið fyrstu valkostir fyrir aðalleikara og leikstjóra. Þau hafi bæði ákveðið að vera með eftir að hafa lesið handritið. Handritinu hefur verið lýst sem samblandi af kvikmyndunum Free Solo og Silence of the Lambs.