Innlent

Þrír er­lendir ferða­menn grunaðir um meiri­háttar líkams­á­rás

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Málið er til rannsóknar.
Málið er til rannsóknar. vísir/vilhelm

Þrír erlendir ferðamenn voru í gær handteknir vegna gruns um meiriháttar líkamsárás í miðborg Reykjavíkur.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá lögreglu.

Þar segir að maðurinn sem varð fyrir árásinni hafi hlotið tannbrot eftir hnefahögg í andlitið. 

„Þá fundust fíkniefni, ætlað kókaín, á tveimur hinna handteknu og voru efnin haldlögð. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu og árásarþola var leiðbeint um aðhlynningu og næstu skref málsins,“ segir í tilkynningunni.

Reyndi að stinga af með falsað skírteini

Þá er sagt frá manni sem gekk berserksgang með vínflösku í hendi um miðbæ Reykjavíkur.

„Maðurinn var mjög æstur og ógnandi og hlýddi engum fyrirmælum þeirra lögreglumanna, sem reyndu að nálgast hann. Hann var því tekinn lögreglutökum og handtekinn. Maðurinn var í annarlegu ástandi og algjörlega óviðræðuhæfur, því var hann vistaður í fangageymslu enda hann ekki fær um að vera úti meðal fólks.“

Þá voru fjórir handteknir grunaðir um ölvunarakstur, þrír grunaðir um fíkniefnaakstur og tveir grunaðir um „blöndu af hvoru tveggja“. Einn hafi reynt að koma sér undan lögreglu með því að bakka í burtu, en hafi verið eltur uppi og handtekinn „gegn talsverðri mótspyrnu“. Lögregla segir hann hafa framvísað fölsuðu rafrænu ökuskírteini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×