Innlent

„Í engu á­standi til að sýsla með slík vopn“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Lögreglan sinnti ýmsum verkefnum í nótt.
Lögreglan sinnti ýmsum verkefnum í nótt. vísir

Tveir voru handteknir í nótt, grunaðir um eignarspjöll og líkamsárás í íbúð í fjölbýlishúsi. Húsráðandi geymdi skotvopn án réttinda í fataskáp.

Frá þessu er greint í tilkynningu lögreglu þar sem greint er frá „markverðum málum“ síðasta sólarhrings.

Aðstoðar lögreglu hafi verið óskað vegna ofbeldis í fjölbýlishúsi. Þar hafi nokkrir menn verið undir áhrifum fíkniefna og húsráðandi með nokkur skotvopn geymd inni í fataskáp.

„Húsráðandi var ekki með gild skotvopnaréttindi og, enn fremur, í engu ástandi til að sýsla með slík vopn. Byssurnar voru haldlagðar og er húsráðandi grunaður um vopnalagabrot,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Árásargjarn í annarlegu ástandi

Þá er greint frá konu sem handtekin var grunuð um að hafa ekið á vegrið undir áhrifum fíkniefna. 

„Dregið var blóðsýni úr konunni og hún síðan vistuð í fangageymslu. Bifreiðin skemmdist töluvert við áreksturinn og var dregin í burtu með dráttarbifreið.“

Losk er sagt frá æstum og árásargjörnum manni í annarlegu ástandi á bar, sem réðist gegn öðrum manni.

„Taka þurfti hann lögreglutökum og handtaka þannig, en maðurinn streittist verulega gegn handtöku. Þá þurftu lögreglumenn að halda manninum, óðum af bræði og ölvun, á jörðinni á meðan beðið var eftir stærri lögreglubifreið svo flytja mætti manninn til vistunar í fangageymslu.“

Lögregla kunni ekki deili á manninum, þar sem hann hafi ekki verið  með skilríki meðferðis og ekki svarað spurningum lögreglumanna um nafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×