Handbolti

Unnu Noreg og tryggðu sér sjöunda sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Össur Haraldsson skoraði átta mörk gegn Noregi.
Össur Haraldsson skoraði átta mörk gegn Noregi. hsí

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri lauk keppni á EM í Slóveníu með því að vinna Noreg, 29-32, í leiknum um 7. sætið í dag.

Reynir Þór Stefánsson, leikmaður Fram, fór mikinn í dag og skoraði ellefu mörk. Össur Haraldsson úr Haukum skoraði átta mörk og Eyjamaðurinn Elmar Erlingsson, sem er búinn að semja við Nordhorn í Þýskalandi, sex. Breki Hrafn Árnason varði vel á lokakaflanum, alls átta skot (36 prósent).

Norðmenn voru með frumkvæðið framan af leik. En eftir þrjú mörk í röð frá Íslendingum um miðjan fyrri hálfleik náðu þeir forystunni, 10-12.

Noregur jafnaði í 14-14 en Ísland skoraði fjögur af síðustu sex mörkum fyrri hálfleiks og leiddi að honum loknum, 16-18.

Norska liðið byrjaði seinni hálfleikinn betur, skoraði fimm mörk gegn einu og náði forystunni, 21-19. En líkt og í fyrri hálfleik tóku íslensku strákarnir síðan við sér og þeir skoruðu þrjú mörk í röð og komust yfir, 24-27.

Þetta bil náðu Norðmenn ekki að brúa. Íslendingar héldu vel á spöðunum á lokakafla leiksins og unnu á endanum þriggja marka sigur, 29-32. Sjöunda sætið því niðurstaðan á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×