Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur spáði því í gær á bloggsíðu sinni að eldsumbrotum á Sundhnúksgígaröðinni væri mögulega lokið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Haraldur spáir fyrir um slíkt og hefur hingað til ekki haft rétt fyrir sér. Kenningu sína byggði hann á GPS-mælingum, sem sýni að hægt hafi á landrisi 12. júlí. Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur segir hins vegar ekkert benda til gosloka eins og Haraldur spáir.
„Það er áframhaldandi landris, það var allskonar veður núna undanfarna daga þannig það er meira frávik í GPS-gagnapunktunum sem hafa komið inn og þar af leiðandi er erfiðara að lesa úr þeim landris. Hins vegar kom inn ótrúlega fínn gagnapunktur í dag og í nótt, sem sýnir að það er áframhaldandi landris þó það gæti hugsanlega verið að hægjast aðeins á því.“
Enn gerir Veðurstofan ráð fyrir kvikuhlaupi eða eldgosi á svæðinu á næstu vikum. Rúmmál uppsafnaðrar kviku nálgist óðfluga sömu stöðu og fyrir síðasta gos.
„Við erum að fá inn fleiri skjálfta núna dag frá degi og greinilega spenna að byggjast upp á svæðinu.“

Stækkaði umtalsvert í síðasta eldgosi
Áhugamenn um jarðhræringar hafa í dag og í gær vakið athygli á gríðarlegri sprungu í Hagafelli við gosstöðvarnar í hópnum Jarðsöguvinir á Facebook. Jóhanna segir sprunguna ekki nýja en vissulega hafi orðið á henni nýleg umbreyting.
„En í síðasta gosi [29. maí] stækkaði hún heilmikið og svo fór að flæða hraun ofan í hana og þetta er bara mjög stór og mikil sprunga. Hraunið sem fór ofan í hana komst í snertingu við grunnvatn og þá urðu þessar vatnssprengingar eins og sáust í síðasta gosi,“ segir Jóhanna.
Sprungan teygir sig suður í átt til Grindavíkur og alveg að varnargörðum.
„Við höfum fylgst með henni sérstaklega í síðasta gosi. Það má gera ráð fyrir að það sé ákveðin framlenging á þessari sprungu sem nái jafnvel enn lengra suður og þetta er dæmi um veikleikana í skorpunni sem er að finna þarna á yfirborðinu.“