Viðskipti innlent

Móður­fé­lag Össurar hagnaðist um 2,8 milljarða á met­fjórðungi

Eiður Þór Árnason skrifar
Vöxtur var í sölu félagsins sem hefur uppfært fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2024.
Vöxtur var í sölu félagsins sem hefur uppfært fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2024. Vísir/Vilhelm

Embla Medical, móðurfélag stoðtækjafyrirtækisins Össurar skilaði 2,8 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi 2024 og jókst hann um 26 prósent frá sama tíma í fyrra.

Tekjur námu 30,2 milljörðum króna á ársfjórðungnum sem samsvarar 9 prósent vexti í staðbundinni mynt. Félagið sá 6 prósent innri vöxt í sölu á stoðtækjum, 2 prósent á spelkum og stuðningsvörum, og 9 prósent í þjónustu við sjúklinga.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá móðurfélagi Össurar sem tók upp nafnið Embla Medical hf. í febrúar á þessu ári. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 6,6 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi eða sem nemur 22 prósentum af veltu á tímabilinu. Jókst hann um 26 prósent milli ára en til samanburðar var EBITDA 19 prósent af veltu á öðrum ársfjórðungi 2023.

Vörumerkin Össur, ForMotion, College Park og Fior & Gentz starfa undir hatti Emblu Medical, en kaup Össurar á Fior & Gentz tilkynnt í byrjun þessa árs.

Metfjórðungur og eiga von á söluaukningu í Bandaríkjunum

Haft er eftir Sveini Sölvasyni, forstjóra félagsins í tilkynningu að annar ársfjórðungur sé söluhæsti fjórðungur í sögu þess.

„Það hefur verið lykilstef í stefnu fyrirtækisins að fjárfesta í nýsköpun með það að leiðarljósi að auka hreyfanleika okkar skjólstæðinga sem og að búa til hagkvæmar lausnir fyrir heilbrigðiskerfið. Það var því einstaklega ánægjulegt að sjá afrakstur hvoru tveggja í ársfjórðungnum, þar sem við annars vegar kynntum tvær nýjar hátæknivörur í flokki stoðtækja sem og að opinbera sjúkratryggingakerfið í Bandaríkjunum hefur aukið verulega aðgengi að hágæða stoðtækjum.“

Félagið lýsir nýju stoðtækjunum Icon® frá College Park og NAVii® frá Össuri sem hátæknihnjám og eru þau sögð nýta gervigreind til að hámarka virkni og upplifun notandans.

„Okkur miðar jafnfram vel að vaxtarstefnu okkar „Growth’27“ sem við kynntum í byrjun síðasta árs en fjárhagsáætlun fyrir 2024 hefur verið uppfærð í 6-8% innri vöxtur (áður 5-8%) og ~20% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða (áður 19-20%),“ segir Sveinn jafnframt í tilkynningu.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×